Fréttir & tilkynningar
Hvað er nú að frétta í skólanum

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
5. desember 2025
Með nýrri og afar vandaðri aðstöðu til list- og verkgreinakennslu í Grundaskóla hefur fjölbreytni í kennsluaðferðum aukist til mikilla muna. Meðfylgjandi myndir voru teknar í smiðjunni fimmtudaginn 27.nóvember en þá var í gangi örnámskeið sem er fyrir 8-10.bekk en í þessum eina tíma var verið að vinna með ólík viðfangsefni, nægir þar að nefna gler, málm og dúkristu og fleira. Annað er ekki að sjá en að nemendum líki vel þessi fjölbreytni í verkefnavali.

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
2. desember 2025
Nú er búið að opna fyrir skráningar í mat á vorönn. Opið verður fyrir skráningar frá 2.desember til 16.desember eftir það er ekki hægt að skrá börnin í mat í gegnum þessa hlekki. Breyting var gerð á matarskráningu nú í haust. Foreldrar barna í 1. – 4.bekk þurfa ekki að skrá börnin sín í mat, heldur eru þau með fasta skráningu í mat alla daga. 5. - 6.bekk skrá í gegnum meðfylgjandi hlekk: https://forms.gle/4AYNdvCJSnV8pVNv7 7. – 8.bekk skrá í gegnum meðfylgjandi hlekk: https://forms.gle/FkckytCQsea8jixR6 9. – 10.bekk skrá í gegnum meðfylgjandi hlekk: https://forms.gle/Uv1HnT4Bp9hk2zNd8 Gerðar voru fleiri breytingar með skráningarskjölin eftir haustskráninguna, til að þau nýtist foreldrum sem best og skýrt sé hvað er í boði. Foreldrar fá sendan tölvupóst með afriti af matarskráningunni þegar búið er að senda inn og er hver dagur skýr með hvað er í boði í matinn.

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
2. desember 2025
Í gær kom Slökkviliðið í heimsókn til okkar í 3.bekk á degi reykskynjarans. Farið var yfir mikilvægi þess að skoða reykskynjara á heimilinu 4 sinnum á ári og skipta um rafhlöðu 1.des ár hvert. Nemendur fengu að gjöf bókina Ævintýri Orra og Möggu – Eldvarnir ásamt því að fá litarbók, buff og endurskinmerki. Við þökkum Slökkviliðinu fyrir þessar dásamlegu gjafir. Kveðja, frá 3.bekk

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
28. nóvember 2025
Alltaf nóg um að vera hjá 10.bekk. Í síðustu viku lauk sýningum á söngleiknum Smell. Krakkarnir stóðu sig frábærlega og hefur þetta verið heilmikill lærdómur fyrir þau og allt 10.bekkjarteymið. Núna tekur við nýtt verkefni. Þar læra nemendur um mannréttindabaráttur og aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku í bland við lestur á bókinni Glæpur við fæðingu eftir Trevor Noah. Við erum að prófa okkur áfram með glósuaðferð þar sem nemendur teikna myndir eftir hvern kafla til þess að hjálpa sér að muna söguþráðinn.
Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
7. nóvember 2025
Stærðfræðin getur verið mörgum frekar flókin og ein af áskorunum kennarans er að leita lausna til að allir nemendur fái að njóta sín. Ein aðferð sem hópur í 7. bekk ákvað að láta reyna á kallast hugsandi skólastofa (Thinking Classroom). Aðferðin gengur út á að nemendur vinna saman í þriggja manna hópum að ákveðnum verkefnum. Hver hópur hefur aðeins eina tússtöflu og einn tússpenna. Þannig þurfa nemendur að vinna saman, útskýra hugsun sína og hjálpast að við að leysa dæmin. Markmiðið er að gera stærðfræðina virka, lifandi og samvinnumiðaða. Þannig læra nemendur að hugsa, ræða og útskýra í stað þess að fylgja hefðbundnum leiðbeiningum. Einn skrifar í einu, hinir tveir hugsa og leiðbeina og svo skiptast nemendur á hlutverkum. Þannig myndast samræða og dýpri skilningur. Eins og stundum vill verða að þá er ekki til nóg af tússtöflum í skólanum en það þarf ekki að vera vandamál. Við getum notað gluggana. Á meðan skammdegið er stutt þá er dimmt úti og bjart inni og gluggarnir tilvaldir í verkið. Nemendum finnst þessi aðferð skemmtileg og minnir frekar á leik heldur en „alvöru stærðfræði“. Samt unnu nemendur fjölda dæmi í deilingu og margföldun, ræddu lausna og komu með hugmyndir.

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
27. október 2025
Skólakór Grundaskóla kom fram á Þjóðahátíð sem haldin var síðastliðinn sunnudag í íþróttahúsinu á Vesturgötu við mikinn fögnuð áheyrenda. Stjórnandi er Lilja Margrét Riedel. Margrét Iðunn Benediktsdóttir lék á fiðlu. Tónleikarnir verða endurteknir seinna á önninni svo fleiri fái að njóta.

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
17. október 2025
Kæru foreldrar/forráðamenn Næstkomandi mánudag 20. og þriðjudag 21. október er vetrarleyfi í Grundaskóla og fellur kennsla niður þessa tvo daga. Skólastarf hefst að nýju samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 22. október. Samvera foreldra og barna er frábær forvörn og nú er einstakt tækifæri til að efla tengslin enn frekar. Það er alltaf hægt að njóta samverustunda með fjölskyldunni og hér má finna hugmyndir af margvíslegri afþreyingu sem börn og fjölskyldur geta notið saman heima við og utan dyra. Við óskum fjölskyldum alls hins besta í vetrarleyfinu. Kær kveðja, Starfsfólk Grundaskóla

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
3. október 2025
9. og 10. bekkur fór á Starfamessu Vesturlands í FVA í dag. Um 40 fyrirtæki, stofnanir og menntastofnanir kynntu störf, starfsgreinar og menntunartækifæri fyrir nemendum. Markmiðið með messunni var að kynna fjölbreytt náms- og atvinnutækifæri á Vesturlandi og skapa beint samtal á milli nemenda og atvinnulífsins. Frábært tækifæri fyrir nemendur til að kynna sér framtíðarmöguleika betur, bæði varðandi nám og störf.






























