Fréttir & tilkynningar
Hvað er nú að frétta í skólanum

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
29. ágúst 2025
Nemendur 10. bekkjar fengu heimsókn í vikunni þegar rithöfundurinn og fyrirlesarinn Þorgrímur Þráinsson kom og flutti fyrir þau fyrirlesturinn Verum ástfangin af lífinu. Þorgrímur náði vel til krakkanna sem hlustuðu af athygli allann tímann. Í fyrirlestrinum fjallaði Þorgrímur um þau mikilvægu skilaboð að við uppskerum eins og við sáum. Hann ræddi við nemendur um fjölmörg mikilvæg málefni sem snerta ungt fólk, þar á meðal samskipti við vini og fjölskyldu, mikilvægi hreyfingar í daglegu lífi og þá töfra sem felast í því að setja sér markmið. Sérstaka áherslu lagði Þorgrímur á leiðir til að rækta hæfileika sína og takast á við kvíða, sem margir unglingar glíma við. Hann deildi dýrmætum ráðum um hvernig hver og einn getur orðið betri manneskja og náð lengra í lífinu með réttri hugarfarsbreytingu Hver og einn taki ábyrgð á eigin hamingju og velgengni, enginn fái allt upp í hendurnar. Við þökkum Þorgrími kærlega fyrir heimsóknina og vonum að hún hafi haft jákvæð áhrif á nemendur.

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
29. ágúst 2025
Nemendur í 8. -10. bekk fengu kynningu á námskeiðum sem boðið verður upp á í vali þessa önnina. Nemendur fengu tækifæri til að ræða við kennara um námskeiðin og var gaman að fylgjast með áhuga þeirra. Það eru mörg spennandi námskeið í boði en þið getið kynnt ykkur framboðið hér á heimasíðunni.

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
12. maí 2025
Nokkrir nemendur í 10. bekk heimsóttu yngsta stig skólans í morgun. Þeir fengu að aðstoða umsjónarkennara bekkjanna m.a. með lestur, stærðfræði og fleira. Einnig spiluðu þau og spjölluðu við nemendur. Dýrmæt reynsla fyrir 10. bekkinga sem útskrifast nú bráðum úr Grundaskóla og frábært samstarf eldri nemenda og yngri.

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
6. maí 2025
Sjóferðin mikla um sundin blá er nú að baki og þetta var bæði virkilega skemmtileg og vel heppnuð ferð. Börnin stóðu sig frábærlega og nutu sín vel, þrátt fyrir mjög blautt veður. Sjóminjasafnið stóð einnig undir væntingum. Alltaf gaman að fara þangað að skoða. Að sjóferðinni og safninu loknu héldum við ferð okkar í Gufunes þar sem við enduðum daginn með pylsuveislu – í grenjandi rigningu! Ferðin var ansi blaut, enda bæði rigning og sjór sem skvettist upp í bátinn. Margir urðu bæði kaldir og votir, en það var samt stutt í brosið. Við töluðum um mikilvægi þess að vera jákvæð og finna það góða í öllum aðstæðum – sem krakkarnir gerðu svo sannarlega. Við tókum fullt af myndum og hvetjum ykkur til að renna yfir þær! Bestu kveðjur, 6. bekkarteymið

Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
29. apríl 2025
Síðastliðinn föstudag fengu allir nemendur 1. bekkjar hjólahjálm að gjöf frá Kiwanis klúbbi Akraness. Einnig fengu nemendur stutta fræðslu um mikilvægi þess að nota alltaf hjálm þegar verið er að hjóla og að það skiptir máli að hjálmurinn sé rétt stilltur. Þökkum þeim kærlega fyrir þessa mikilvægu gjöf.
Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
2. apríl 2025
Blái hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason. 7.bekkur í Grundaskóla æfir nú leikritið Bláa hnöttinn. Sýningar fyrir skólann fara fram í næstu viku og er frumsýning 3.apríl. Foreldrasýningar verða í vikunni eftir. Það einstaka við þessa uppsetningu er að leikmynd er alfarið í höndum nemenda. Gaman var að sjá hvað allir hjálpuðust að. Æfingar hafa gengið vel og erum við nú á lokametrunum. Leikstjórn er í höndum Lilju Margrétar Riedel.