Það getur verið gagnlegt að kynna sér Læsisvefinn

Við vekjum athygli skólasamfélagsins á skemmtilegum og gagnlegum kennslusvæðum. Eitt af slíku sem getur gagnast bæði skólafólki og foreldrum til að efla lestur er einmitt Læsisvefurinn. Læsisvefurinn er fyrst og fremst ætlaður þeim sem kenna lestur. Honum er skipt í fimm hluta sem kallast á við matstækin. Þessir þættir eru: Forsendur læsis, lesfimi, orðaforði og lesskilningur, ritun og lestrarmenning.

Flestir kennarar þekkja til þessara upplýsinga en það getur verið mjög gagnlegt fyrir foreldra að kynna sér málin einnig því lestrarkennslan er samstarfsverkefni heimilis og skóla. Margir eiga í erfiðleikum með að ná tökum á lestri og þá skiptir miklu að kennslan sé fjölbreytt og vandað sé til kennsluverkefna.

Hugmyndin er sú að inn á vefinn safnist alls konar gagnreyndar aðferðir, stórar og smáar, sem eiga að auðvelda kennurum og öðrum er sinna lestrarkennslu að færa sig í átt að vandaðri og markvissri lestarkennslu fyrir allt grunnskólastigið.

Það er Menntamálastofnun sem heldur utanum Læsisvefinn.

Sjá nánar á meðfylgjandi slóð....

laesisvefurinn.is