Fundargerðir


Fundargerð skólaráðs Grundaskóla 2021

 

Fundargerð fundar skólaráðs Grundaskóla

Þriðjudaginn 23.11. 21 kl. 17:00

Mættir: Guðrún Lind Gísladóttir, Ingunn Þ. Jóhannesdóttir, Sigurbjörg R. Ragnarsdóttir, Jón Þ. Þórðarson, Flosi Einarsson, Kristrún L. Marteinsdóttir, Valgerður J. Oddsdóttir, Sigurður Arnar Sigurðsson.

 

Dagskrá:

  • Skólastjóri setti fund og bauð fundarmenn velkomna til fundar. Hann kynnti jafnframt fyrirliggjandi dagskrá. 
  • Starfsáætlun skólaráðs lögð fram til umræðu.

Drög að starfsáætlun ráðsins fyrir skólaárið 2021-2022 samþykkt. 

  • Framkvæmdir í skólahúsnæði Grundaskóla

Skólastjórnendur kynntu framkvæmdir í skólahúsnæði Grundaskóla. Miklar byggingarframkvæmdir standa yfir og eru fyrirhugaðar enda starfar skólinn nú við mikil þrengsli. Ftr. í skólaráði Grundaskóla lýsa yfir áhyggjum af starfsaðstæðum nemenda og starfsmanna og árétta mikilvægi þess að framkvæmdaráætlun standist og nýr skóli verði kominn í notkun árið 2024. Jafnframt fagnar skólaráð þeim mikla metnaði sem bæjaryfirvöld leggja í uppbygginguna og byggingaráform eru öll hin glæsilegustu.

Skólaráð mun fylgja byggingarmálum eftir á næstu fundum ráðsins. 

  • Loftgæðamál

Rætt um stöðu loftgæðamála og þær úrlausnir sem gripið hefur verið til. Skólaráð Grundaskóla leggur áherslu á öryggismál og lýsir yfir áhyggjum af stöðunni. Mikilvægt er að bæjaryfirvöld og skólastjórn skólans leggi áfram allt í sölurnar til að tryggja gott starfsumhverfi nemenda og starfsmanna. Umræðu um þennan þátt er vísað áfram til næsta fundar ráðsins. 

  • Niðurstöður foreldrakönnunar í nóvember 2021 kynntar

Niðurstöður foreldrakönnunar sem framkvæmd var rafrænt nú í nóvember gefur miklar og góðar upplýsingar um afstöðu foreldra og forráðamanna til skólastarfsins. Alls voru þrettán spurningar lagðar fram og var svörun góð eða allt upp í tæp sjö hundruð þátttakendur þegar mest var. Jákvætt er hversu ánægðir foreldrar eru með Grundaskóla og þjónustu hans.

Skólaráð leggur áherslu á að afstaða foreldra og nemenda sé könnuð reglubundið og skipulega. Áhersla er lögð á að gott skólastarf byggist upp á góðu samstarfi og samábyrgð allra aðila skólasamfélagsins. 

  • Önnur mál
    • Umræða um eineltismál

Farið yfir verkferla og upplýsingar skólans í þessum mikilvæga málaflokki. Allar upplýsingar um stefnu og viðbrögð skólans eru áberandi á heimasíðu skólans og í samskiptakerfinu Weduc. Skólaráð lýsir yfir ánægju með vinnubrögð skólans en skorar jafnframt á alla aðila skólasamfélagsins að berjast gegn einelti með öllum ráðum. Engin einstaklingur á að þurfa að sitja undir slíku óháð aldri, kyni eða staðsetningu. Rannsóknir sýna að 10-16% fólks telji sig verða fyrir einelti eða einhverskonar ofbeldi á lífleiðinni. Þessar tölur eiga að vera öllum í samfélaginu umhugsunarefni. Hér er verk að vinna á öllum sviðum samfélagsins.

Skólaráð mun fylgja þessum málaflokki eftir í samstarfi við skólastjórnendur og stjórn foreldrafélagsins. Grundaskóli og starfsmenn hans munu ekki láta sitt eftir liggja hér eftir sem hingað til að berjast gegn einelti. 

  • Ný stjórn Foreldrafélags Grundaskóla hefur verið kjörin

Ólöf Helga Jónsdóttir

Anna María Þórðardóttir

Hannes Sigurbjörn Jónsson

Gréta Jónsdóttir

Marsibil Björk Eiríksdóttir

Einar Gestur Jónasson

Kristján Kristjánsson

Auk þessa hafa 55 foreldrar verið kjörnir í fulltrúaráð eða sem nemur fimm í hverjum árgangi. Lista yfir fulltrúa bekkja má finna á heimasíðu skólans. 

Skólaráð fagnar að svo öflugur foreldrahópur sinni sjálfboðastörfum fyrir skólann og sé tilbúinn að gæta hagsmuna hans á margvíslegum sviðum. Ráðið vonast eftir að starf foreldrafélagsins eigi eftir að eflast mjög á næstu misserum. 

  • Þakkir til starfsmanna

Skólaráð sendir öllum starfsmönnum þakkir og lof fyrir frábæra frammistöðu á erfiðum tímum. Í sögulegu samhengi hefur skólinn glímt við ótrúlegar aðstæður s.l. tvö ár og má í því sambandi nefna húsnæðisskemmdir, uppbrot á skólastarfi yfir í sjö byggingar um allan bæ, glímt við heimsfaraldur, kennt í fjarnámi og blönduðu staðnámi o.fl. Endurskipulagt allt skólastarfið aftur og aftur án þess að missa niður mikilvæga starfsemi. Slíkt starf er ekki sjálfgefið og ótrúlegt að skólinn haldi fullri ferð þrátt fyrir allt. Skólaráð fagnar metnaðarfullu skólastarfi sem sinnt er í Grundaskóla.

 

 Fundi slitið kl. 18:50