Saga Grundaskóla

Saga skólans: Stiklað á stóru

Grundaskóli tók formlega til starfa haustið 1981 með nemendur fædda árin 1972, 1973 og 1974. Fyrstu nemendurnir voru ekki útskrifaðir fyrr en vorið 1988. Allt frá byrjun var áhersla í skólastarfinu á nemandann og gengið út frá því að góð líðan nemanda sé forsenda náms. Skólinn hefur verið meðvitaður um að nemendur þroskast misfljótt og hafa mismunandi hæfileika. Þess vegna var lögð rík áhersla á að koma til móts við hæfileika hvers og eins og strax tekið upp valkerfi þar sem nemendur gátu haft áhrif á nám sitt. Frá upphafi hefur mikil áhersla verið lögð á samstarf við foreldra og heimili og að skólinn væri hluti af samfélaginu sem hann starfaði í, opinn þeim sem vildu nýta hann.

Grundaskóli hefur verið byggður í áföngum. Elsta byggingin (yngsta stigið) var tekin í notkun að hluta haustið 1981. Húsnæði unglingadeildar var tekið í notkun 1988, stjórnunarálma með kennarastofu, vinnuaðstöðu fyrir kennara, bókasafni og sal kom 1995 og loks var miðstigsbyggingin tekin í notkun þegar skólinn varð einsetinn haustið 2002.

Guðbjartur Hannesson, sem var skólastjóri frá upphafi og til loka skólaársins 2006-2007, hefur lýst Grundaskóla sem skóla með sveigjanlega kennsluhætti fremur en opnum skóla. Elsta byggingin er með opin kennslurými og stór miðsvæði en þau kennslurými sem komu á eftir eru meira lokuð. Áhersla hefur ávallt verið lögð á kennslu í list- og verkgreinum. Skólinn hefur í þessum greinum eins og öðrum aðlagað sig breytingum í skólastarfinu. Mikil breyting varð við einsetningu skólans bæði í valkerfi unglingastigs og  list- og verkgreinakennslu almennt. Unglingar í 8. -10. bekk hafa frjálst val sem skipulagt er í kringum svokallaða Námskeiðabraut en val annarra árganga er að ýmsu leyti bundið.

Áhersla á list- og verkgreinar og tækifæri nemenda til að njóta sín utan hins bókabundna náms hefur ekki síst verið áberandi á unglingastiginu. Þar hefur í mörg undanfarin ár verið haldin söngvarakeppni grunnskólanna á Akranesi (Hátónsbarkakeppnin). Frumsamdir söngleikir hafa verið settir upp og sýndir við fádæma undirtektir. Fyrst var Frelsi sýnt, en höfundar þess voru Flosi Einarsson og Gunnar Sturla Hervarsson. Einar Viðarsson bættist í hópinn þegar Hunangsflugur og villikettir komust á fjalirnar. Draumaleit er svo samstarfsverkefni við skóla á Ítalíu, í Svíþjóð og Tyrklandi. Sá söngleikur var sýndur í hverju landi fyrir sig og loks var sameiginleg sýning í Stokkhólmi í desember 2007. Enn fremur hafa litið dagsins ljós söngleikirnir Vítahringur (2009), Nornaveiðar (2012) og Úlfur, úlfur (2015). Ekki verður skilið við tónlistina án þess að geta um verkefni sem heitir „Ungir / gamlir“ en Flosi Einarsson á frumkvæði að því. Þar koma saman til æfinga og síðan tónleikahalds ungt tónlistarfólk og gamlir „refir“ í tónlistarbransanum. Tónleikarnir hafi verið fastur liður á Vökudögum síðan árið 2006.

Grundaskóli

Margar hefðir hafa orðið til í skólastarfinu. Þar má nefna fjölbreytt þemaverkefni í öllum árgöngum skólans auk samsöngs á sal skólans, árlegt jólasveinaleikrit, árlegt leikrit leiklistarsmiðju unglingadeildar og svona mætti lengi telja. Reykjaskólaferð 7. bekkjar og útskriftarferð 10. bekkjar í Þórsmörk eru fastir liðir. Nemendur í 1.- 8. bekk undirbúa fjölbreytt  atriði fyrir árshátíðarsýningu, en unglingarnir halda sína árshátíð með hátíðlegri matarveislu þar sem kennarar og starfsmenn þjóna til borðs.

Grundaskóli er móðurskóli í umferðarfræðslu og hefur verið undanfarin ár. Mikil vinna hefur farið fram innan skólans í tengslum við þetta verkefni og kennarar lagt sig fram um að leita nýrra leiða til að kenna um umferðina. Einnig hefur hópur kennara farið um landið og kynnt fyrir öðrum skólum það sem gert er í Grundaskóla. Meðal þess er vefsvæðið eða umferðarvefurinn  www.umferd.is sem er samstarfsverkefni Grundaskóla, Samgöngustofu og Námsgagnastofnunar.

Mörg þróunarverkefni hafa verið unnin af starfsfólki Grundaskóla. Má þar nefna „Ég vil vera í sama skóla og bræður mínir“ sem er unnið í tengslum við skólagöngu drengs með Downs- heilkenni sem var í almennum bekk í Grundaskóla alla sína grunnskólagöngu. Önnur verkefni eru „Engill úr Paradís“ sem er upplýsingabæklingur fyrir foreldra, „Að gera góðan skóla betri“ sem var samvinnuverkefni grunnskóla á Akranesi. Aftur til framtíðar var þróunarverkefni um breytta kennsluhætti í unglingadeild. Önnur þróunarverkefni eru t.d. um námsmat, lífsleikni, ábyrgð nemenda á eigin námi og óhefðbundin stærðfræðikennsla.

Starfsfólk Grundaskóla hefur auk þess í gegnum árin tekið þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum við aðrar skólastofnanir hér heima og erlendis.

Grundaskóli hefur alltaf átt gott samstarf við bæjaryfirvöld á Akranesi. Samstarf hefur verið með ágætum á milli grunnskólanna auk þess sem samstarf við leikskóla og framhaldsskóla fer vaxandi. Fjölmargir gestir heimsækja skólann á hverju ári og starfsfólk Grundaskóla leitar eftir þekkingu og reynslu annarra grunnskóla. Slíkt samstarf er af hinu góða og eflir skólann.

Sífellt fleiri grunnskólanemendur stunda framhaldsskólanám af einhverjum toga. Það er í vaxandi mæli þörf fyrir úrræði bæði fyrir bráðgera nemendur og ekki síður nemendur sem þurfa sértækan stuðning eða aðstoð í lengri eða skemmri tíma. Grundaskóli leggur metnað í öfluga stoðþjónustu þar sem þekking sérkennara, sálfræðings, hjúkrunarfræðings, iðjuþjálfa, þroskaþjálfa og námsráðgjafa stendur nemendum til boða.

Grundaskóli hlaut árið 2005 fyrstur skóla Íslensku menntaverðlaunin sem forseti Íslands stofnaði til. Skólinn hefur unnið til fjölda annarra verðlauna fyrir öflugt skólastarf og má í því sambandi nefna að Starfsmannafélag Reykjavíkur útnefndi skólann sem stofnun ársins árið 2012 og landsfélög Rauða krossins í Malaví og á Íslandi veittu nemendum sérstaka viðurkenningu fyrir áralanga þátttöku og stuðning í alþjóðlegu hjálparstarfi. Enn fremur hefur skólinn hlotið foreldraverðlaun Heimilis og skóla fyrir söngleikjaverkefnð Nornaveiðar.