Foreldrasamstarf

Rík áhersla er lögð á samvinnu skólans og heimila nemenda. Foreldrasamstarf er einkum með eftirfarandi hætti:

Haustkynningar


Kennarar hvers bekkjar eða árgangs boða til sín foreldra til að kynna þeim verkefni vetrarins og skólanámskrá viðkomandi árgangs. Þar eru einnig reyfaðar þær nýjungar sem á döfinni eru í skólanum eða í hverjum árgangi hverju sinni. Einnig er fjallað um félagslíf viðkomandi árganga.  Kennarar skulu kynna og ræða væntingar  og áherslur varðandi heimanám og samstarf heimila og skólans og skrá athugasemdir og ábendingar foreldra varðandi skólastarfið.


Námskeið fyrir foreldra


Halda skal námskeið á vegum skólans fyrir foreldra 1. , 5. og 8. bekkja þar sem farið er yfir mál sem tengjast því að byrja í skóla og að flytjast af einu aldursstigi yfir á annað (milli deilda hér í skólanum). Ræða skal og kynna m.a. stoðkerfi skólans, félagsstörf, samræmd próf, heimanám o.fl.

Heimsóknir foreldra


Foreldrum er boðið að koma í heimsókn í skólann og fylgjast með skólastarfinu hvenær sem er.

Dagleg samskipti, símaviðtöl


Kennarar bjóða upp á viðtöl þegar þörf er á. Foreldrar geta lagt inn skilaboð á skrifstofu skólans með ósk um að kennari hringi.

Vitnisburðarviðtöl


Vitnisburður nemenda er afhentur foreldrum og nemanda í sameiginlegu viðtali við kennara tvisvar á ári, oftast í nóvember og febrúar/mars. Að auki fá nemendur skriflegan vitnisburð að vori.

Sameiginleg námskeið eða skemmtanir


Hægt er að bjóða upp á sameiginleg tómstundakvöld, frístundaval eða önnur sameiginleg verkefni. Þar má vinna að ýmsum verkefnum á vegum foreldrafulltrúa hverrar bekkjardeildar, foreldrafélags eða undir leiðsögn kennara skólans.

Sérstök tilefni


Í lok skólaárs eða við lok ákveðinna verkefna er foreldrum oft boðið í skólann eina kvöldstund eða daglangt og kynna nemendur og kennarar þá fyrir þeim starfið.

Foreldrum er boðið í skólann til að skoða nemendavinnu.


Ennfremur leita kennarar og starfsfólk skólans til foreldra um aðstoð við skólastarfið á ýmsan máta, t.d. með sameiginlegum vinnudegi, við undirbúning fyrir jólaskemmtanir, söngleikjaverkefni, í ferðalögum og vettvangsferðum, við útvegun á ýmsu efni o.s.frv.

Hafið samband strax!


Foreldrar eru eindregið hvattir til að hafa samband símleiðis við skólann hvenær sem ástæða þykir til. Einnig eru kennarar hvattir til að hafa samband símleiðis við foreldra, bæði út af ánægjulegum og miður ánægjulegum tilefnum.

Samskiptabók


Samskiptabók, bók sem nemandinn ber á milli heimilis og skóla, er einnig notuð til að koma upplýsingum á milli.