Grundaskóli er heilsueflandi skóli og við leggjum áherslu á að allt starfsumhverfi skólans sé sem best. Eins og allir ættu að kannast við eru mikil þrengsli í skólanum vegna framkvæmda en vonandi lagast staða mála fljótlega þegar E-álma skólans kemst í notkun á ný. Markvisst er unnið að því að bæta stöðuna bæði innan skólans og utan.
Stórtíðinda er að vænta á þessum vettvangi varðandi útboð á C-álmu skólans, yfirtöku á Garðaseli o.fl. Þá er von á nýjum kennslugámum á skólasvæðið sem mun bæta aðstöðu okkar verulega. Við munum kynna stöðu mála varðandi endurbætur og framkvæmdir betur á næstu dögum.
Nú í haust höfum við lagt áherslu á að allir nemendur fái góða næringu í skólanum. Starfsfólk í mötuneyti skólans hefur unnið markvisst að uppbyggingu á nýjum matarskráningarvef sem nefnist Timian. Á þessum nýja vef er möguleiki á að skoða betur hvað er í matinn og hvernig orkugildi skiptist milli fæðutegunda. Við kynnum matarskráningarkerfið betur á næstu dögum en hér er mikið framfaraspor á ferð fyrir alla sem nýta þjónustu mötuneytisins.
Í haust höfum við styrkt grænmetisbar skólans en grænmeti er nær alltaf er í boði fyrir nemendur og starfsmenn. Unnið er að því að bæta tækjabúnað og koma upp betra kæliborði fyrir sjálfsafgreiðslu. Þegar því er lokið er möguleiki á að auka fjölbreytni og bæta öll gæði.
Í haust voru áform uppi um að taka aftur upp ávaxtastundina en nú hefur verið horfið frá því. Í staðinn höfum við tekið upp á því að hafa ávaxtabita í boði í mötuneytinu fyrir þá sem vilja. Samhliða þessu er hugmyndin að kynna hvern ávöxt sérstaklega fyrir nemendum og gildi hans fyrir fólk á öllum aldri.
Á næstu dögum hefst átak skólans gegn matarsóun og viljum við gjarnan að engum matvælum sé hent. Það er sjálfsagt að fá sér ábót ef maður en svangur en við viljum alls ekki að matnum sé hent eða að einhverskonar óhóf viðgangist.
Nú nálgast vetur og allra veðra er von. Við hvetjum allt okkar fólk til að nota vistvænar samgöngur. Það er algjör óþarfi að keyra börn í skólann alla daga. Á næstu dögum hefst gangbrautagæsla við allar stærri gönguleiðir að Grundaskóla. Við hvetjum alla til að nota endurskinsmerki og fara varlega í umferðinni.
Um áramót hefst aukin flokkun á rusli á öllum heimilum á Akranesi. Við í Grundaskóla ætlum ekki að láta okkar eftir liggja í þessum málum og munum herða okkur í fræðslu og sorpflokkun í skólanum. Vonandi getur samfélagið okkar sameinast um að gera enn betur og stíga stórt framfaraspor í allri umhverfishugsun.
Nemendur Grundaskóla koma víða að dagskrá á Vökudögum á Akranesi. Má í því sambandi benda á myndlistarsýningar og kórsöng. Einnig stendur nú yfir mikill undirbúningur fyrir Vetrarnætur á Byggðasafninu í Görðum. Þá er undirbúningur fyrir jólahátíðina að hefjast og æfingar fyrir leiksýningar komnar á dagskrá. Menningarstarf í skólanum stendur sannanlega í miklum blóma.
Á síðasta ári stóð skólinn fyrir nokkrum frístundanámskeiðum og voru þau vel sótt af nemendum og foreldrum en eitt af megin markmiðum þessara fræðslutilboða er að gefa nemendum og foreldrum tækifæri til að vinna að einhverju uppbyggilegu og skemmtilegu saman. Á næstu dögum munum við taka upp þráðinn og bjóða upp á spennandi frístundanámskeið. Meira um það síðar.
Það verður seint of sagt hversu mikilvægur svefninn er fyrir ungt fólk og mikilvægt að allir komi vel hvíldir í skólann og fái nægan nætursvefn. Það er margsannað að góð líðan er lykill að góðum námsárangri. Við höfum veitt því athygli að mánudagar eru oft erfiðari en aðrir dagar og einnig dagar eftir frídaga í miðri viku. Það er gott ráð að reyna að halda í allar venjur og haldi í rútínuna varðandi hvíldartíma barna.
Nú er haustfundum með foreldrum að ljúka og ef eitthvað er enn óljóst varðandi skipulag skólastarfsins hvetjum við alla til þess að hafa samband við kennara og skólastjórnendur til að fá frekari upplýsingar.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að góð samskipti milli foreldra er ein besta forvörnin. Við hvetjum foreldra til skoða og sameinast um það hvernig þið viljið hafa umgjörðina um ykkar börn. Samtaka erum við sterkari í uppeldinu. Við vekjum athygli á að Heimili og skóli eru með góðar leiðbeiningar um gerð bekkjarsáttmála.
Að lokum viljum við hvetja alla sem vilja starfa í foreldrafélagi skólans að láta vita af sér og taka þátt í starfinu. Öflugt og uppbyggilegt foreldrastarf í öllum árgöngum skólans styrkir skólastarfið og þjónustu við börnin.
Vinnum saman og gerum betur og betur.
Grundaskóli er OKKAR
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is