Loftgæðavandamál í Grundaskóla

Tímabundin flutningur í annað húsnæði vegna breytinga

Eins og áður hefur verið upplýst hefur verið uppi grunur um að loftgæði væru ekki sem skyldi í C-álmu (yngsta stigi) skólans. Nokkur börn og starfsmenn hafa sýnt merki um útbrot, hæsi og fleiri heilsufarseinkenni og af þeim orsökum réðumst við í allsherjarúttekt á loftgæðum í skólanum og munu niðurstöður liggja fyrir á allra næstu dögum. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að meginorsök vandans sé áhrif frá glerullareinangrun og rakaskemmdum.

Endanlegar niðurstöður sérfræðinga hafa ekki enn borist en hins vegar finnst skólastjórn nauðsynlegt að bregðast strax við ástandinu.

Strax í næstu viku munum við kynna niðurstöður úttektar sérfræðinga á húsnæði Grundaskóla.

Þetta þýðir miklar breytingar hjá okkur og megin markmiðið er að tæma C-álmuna, rými yngsta stigsins og rými unglingadeildar sem allra fyrst. Frekari upplýsingar um hvar yngsta stigið verður staðsett og breytingar hjá öðrum árgöngum verða kynntar um leið og þær liggja fyrir.

Eins og gefur að skilja þýðir þetta að ýmsar breytingar verða á stundatöflu viðkomandi árganga og annars konar fyrirkomulagi. Við erum núna að vinna að því að skipuleggja þessar breytingar og nánari upplýsingar munu berast til ykkar frá umsjónarkennurum barna ykkar. 

Markmið skólastjórnar er að þessar breytingar raski sem minnst hefðbundnu námi barnanna en ljóst er að við erum að glíma við ástand sem nauðsynlegt er að bregðast við án tafar.  Við vonumst til að endurbætur hefjist hið fyrsta þannig að hefðbundið skólastarf geti hafist í haust.

Nú sem aldrei fyrr reynir á samstöðu og góða samvinnu á milli heimilis og skóla.

Við treystum á okkar fólk.

Bestu kveðjur

Skólastjórn Grundaskóla