,,Ljósin hans Gutta" lýsa í Garðalundi á ný

Falleg og litrík ljós sem lýsa upp tré í Garðalundi á aðventunni verða kveikt þann 6 des. 2020.

Ljósin eru kölluð „Ljósin hans Gutta“ og er um að ræða samfélagsverkefni sem Hollvinir Grundaskóla, skólafólk á Akranesi og fleiri standa að í minningu um Guðbjart Hannesson, fyrrverandi skólastjóra Grundaskóla, bæjarfulltrúa, alþingismann og ráðherra.

Ljósunum er ætlað að gleðja bæjarbúa á öllum aldri en í störfum sínum lagði Gutti mikla áherslu á að menn hefðu bjartsýni og framfarir að leiðarljósi í öllum verkum. Verkefninu er einnig ætlað að hafa börn og barnamenningu í forgrunni.

Ljósin hans Gutta eiga aldrei betur við en einmitt núna þegar Covid19 hefur herjað á um langan tíma en verkefninu er ætlað að auka samkennd og gleði í samfélaginu á Akranesi. Með Ljósunum hans Gutta opnast ævintýraheimur í skógræktinni.

Við hvetjum fjölskyldur til að finna sér saman dag eða kvöld á aðventunni til að fara og heimsækja bæli Jólakattarins eða jafnvel máta pottinn hennar Grýlu. Svo má líka skoða heimili jólasveinanna sem búa jú í Garðalundi á aðventunni nú eða prófa að labba yfir brúna þeirra geitapabba, geitamömmu og litla kiða kiðs. Á ýmsum stöðum er að finna sögur, ljóð og lög sem hægt er veiða í símann sinn með hjálp myndavélar og QR-kóða og svo er um að gera að nota hugmyndaflugið til viðbótar.

Ævintýrið er ykkar - góða skemmtun.