Kennslustofum fjölgar - endurbygging C-álmu komin á fulla ferð

Nú vinna iðnaðarmenn kappsamlega að því að koma nýjum kennslustofum í notkun við Grundaskóla. Aðstaða fyrir list- og verkgreinar er að komast í gagnið á Grundaseli og nú á bara eftir að klára aðstöðu fyrir heimilisfræðina. Kennarar í tónlist, myndlist og texstíl hafa lokið flutningum og síðust handtökin eru nú lögð að aðstöðu fyrir heimilisfræðina. Frístundin er einnig að klára flutninga og hefur hafið sína starfsemi á svæðinu.

Vinna við nýjar kennslustofur í s.k. gámum er enn í vinnslu en reiknað er með að fyrstu kennslustofurnar komist í notkun n.k. miðvikudag. Ítrekaðar tafir á þessari framkvæmd er mjög bagalegar fyrir okkur og veldur vandræðum. Unnið er að lausn varðandi þau mál í samstarfi við bæjaryfirvöld.

Iðnaðarmenn eru enn að vinna að lokafrágangi framkvæmda í gömlu stjórnunarálmunni og vonumst við til að þau verkefni fari að klárast hið fyrsta.

Fjöldi iðnaðarmanna vinnur nú auk þessa alls að því að rífa niður innréttingar í C-álmunni og lokað hefur verið fyrir umferð nemenda og skólafólks um bygginguna. Það þýðir að aðeins eru þrír inngangar í notkun inn í skólann um þessar mundir. Þetta er aðalinngangur við skrifstofu skólans, í B-álmu frá Víkurbraut og inn á yngsta stigið við matsalinn. Skóhillum hefur verið fjölgað á þessum stöðum en ljóst er að mikill umgangur verður á þessum svæðum meðan á lokun annarra innganga stendur yfir.

Framkvæmdir við uppbyggingu við nýtt íþróttahús á Jaðarsbökkum gengur mjög vel og er verkefnið á áætlun. 

Til að tryggja öryggismál hafa girðingar verið settar upp á skólalóðinni. Stórvirkar vinnuvélar eru að störfum og bráðlega verður byggingarkrani settur upp við skólann. Fljótlega mun leiksvæðið aukast aftur eða um leið og tækjum hefur annars vegar verið komið endanlega fyrir tengt byggingarframkvæmdum á C-álmunni og hins vegar verið fjarlægð tengt uppbyggingu á gámaeiningum.

Við munum flytja frekari fréttir um stöðu framkvæmda um leið og nákvæmari upplýsingar liggja fyrir. Hér leggjast hreinlega allir á eitt að láta þetta ganga vel fyrir sig og leysa óteljandi verkefni á stórum vinnustað. Ef eitthvað er óljóst er foreldrum sem öðrum velkomið að hafa samband við skólastjórnendur sem reyna þá að veita frekari upplýsingar og svör um stöðu mála.