Hvar og hvernig – upplýsingar um stöðu mála í Grundaskóla

Eins og áður hefur komið fram, hefur skólastjórn í samstarfi við bæjaryfirvöld, gripið til róttækra aðgerða vegna loftgæðamála í skólabyggingu Grundaskóla. Alls starfa um áttahundruð einstaklingar, nemendur og starfsfólk í skólanum og því hafa þessar breytingar áhrif á marga. Þetta mál er í algjörum forgangi hjá bæjaryfirvöldum og tekið alvarlega. Málið er unnið í nánu samstarfi við færustu sérfræðinga á þessu sviði.

Á föstudag komu bráðabirgðaniðurstöður vegna rannsókna sérfræðinga frá VERKÍS verkfræðistofu og fleiri aðila á húsnæði skólans. Niðurstöður eru enn í vinnslu en heildarskýrslan verður formlega kynnt um leið og hún liggur fyrir. Umsjónarkennarar munu almennt sjá um upplýsingaveitu til foreldra og nemenda varðandi breytingar á kennsluáætlunum, stundaskrá o.fl. Foreldrar eru hvattir til að beina fyrirspurnum til þeirra ef eitthvað er óljóst en einnig má beina fyrirspurnum beint til skólastjóra og skrifstofu skólans.

Bæjaryfirvöld hafa lagt mikla áherslu á verkefnið en strax á föstudag mættu iðnaðarmenn í hús til að gera verkáætlun og hönnuður hefur þegar verið ráðinn í verkið. Hann mun hefja vinnu strax á mánudag og von er á fyrstu iðnaðarmönnum kl. 8 á mánudagsmorgun.

HVAR og HVAÐ...

Síðustu vikurnar hafa skólayfirvöld brugðist við vandanum á margvíslegan hátt. Dæmi um slíkar aðgerðir eru:

· Við slökktum á loftræstikerfi í C-álmu

· Við settum inn sérstakar lofthreinsivélar

· Við beittum markvisst náttúrulegri loftun (útihurðir og gluggar opnaðir skipulega)

· Verktakaflokkur fór í aukaþrif á veggjum, ljósum og loftræstistokkum til að draga úr rykmengun.

· Börn sem hafa einkenni voru flutt til, dregið úr skólasókn, o.m.fl. í samstarfi við foreldra

Staða mála í dag

Forgangur varðandi framkvæmdir er settur á að koma unglingadeildinni í notkun á ný og er okkur tilkynnt að framkvæmdasvið gefi sér 5-7 daga til að koma okkur inn í húsnæðið á ný.

Til að gera langa sögu stutta þá er þörf á víðtækum aðgerðum um allt hús. Sumt má laga í snarhasti, annað getur beðið um sinn og sumt þarf hreinlega að endurbyggja á næstu mánuðum.

Til að gera málið flóknara þá eru rakaskemmdir af ýmsum toga. Stundum þarf bara að laga rakaskemmdir en á öðrum stöðum getur mygla verið vandamálið. Mygla og mygla er síðan ekki það sama því efnamygla er verri en önnur. Það er Náttúrufræðistofnun sem stýrir með VERKÍS, hvernig bregðast þarf við á hverjum stað. Sú stefna skýrist í vikunni en eins og mál standa núna eru líkur á að við töpum ekki mikið af námsgögnum eða dýrmætum hlutum.

Stutt yfirlit

Meginvandamál yngsta stigsins er glerullaragnir sem erta börn og fullorðna. Einnig þarf að fjarlægja klósettsvæðið að stórum hluta og lagfæra þakklæðningu. Við erum að tala um að yngsta stigið verður í fyrsta lagi tilbúið í september næst komandi. Nú er í skoðun hvort hreinlega eigi að endurhanna allt svæðið og byggja nýtt kennslusvæði sem tekur mið af kröfum til framtíðar

Vandkvæði á unglingastigi komu okkur að hluta til á óvart en þar þarf að bregðast með hraði við rakaskemmdum svo við sitjum ekki uppi með mikið vandamál síðar. Sú viðgerð á ekki að taka langan tíma en hugsanlega verður Gryfjunni lokað fram á haust en átta kennslustofur verða teknar í notkun eftir 5-7 daga.

Miðstigið sleppur best og engar alvarlegar athugasemdir eru þar. Sama má segja um miðsvæðið en laga þarf rakaskemmdir við mötuneytið og á bókasafni í sumar.

Stjórnunarálman heldur sjó en laga þarf rakaskemmdir á fjórum eða fimm stöðum.

Sama má segja um Eyjuna en lélegur frágangur er á gólflistum og á salerni er ýmislegt sem kallar á lagfæringar á næstu vikum og mánuðum. Eyjan heldur þó vel velli til vors miðað við þessa úttekt.

Verk- og listgreinaálma fær ekki alvarlegan skell en margvíslegar athugasemdir eru sem bregðast þarf við. Skólastjórn hefur hins vegar lagt til að þar verði sem minnst lagfært að sinni en allt húsið endurhannað og endurnýjað frá grunni sem allra fyrst. Það gerist ekki á þessu ári en hugsanlega 2022.

Hvernig förum við í gegnum þetta tímabil

  • 1.-3. bekkur.  Við ætlum að tækla ástandið á þann hátt að 1.-3. bekkur verða fluttir á miðstigið og verða þar út skólaárið.
  • 4. bekkur verður áfram í Eyjunni eins og gert var ráð fyrir.
  • 5. bekkur flytur tímabundið úr húsi og hefur aðstöðu í Þorpinu/Arnardal. Við gerum ráð fyrir endurkomu í Grundaskóla eftir rúma viku en þá fer árgangurinn á unglingastigið. Hér ræður tímalengd hversu lengi við erum að fá bygginguna aftur eftir lagfæringar.
  • 6. bekkur fer tímabundið í frístundamiðstöðina við Garðavöll. Sama áætlun er varðandi þann árgang og þann fimmta. Stutt fjarvera eða u.þ.b. vika.
  • 7. bekkur fer tímabundið í fjarnám og rúlluinnköllunarkerfi í Íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum. Hann kemur aftur heim á sama tíma og fimmti og sjötti bekkur og fer í unglingadeildina.
  • 8. bekkur fer tímabundið í fjarnám og rúlluinnköllunarkerfi í Tónlistarskólanum. Við getum líklega verið með þá aðstöðu til vors en einnig er hugsanlegt að færa sig yfir á Jaðarsbakka til að minnka fjarlægðir. Við skoðum þetta með umsjónarkennurum og foreldrum í vikunni.
  • 9. bekkur er á fullu í samræmdum prófum frá mánudegi til miðvikudags. Líklega verðum við að vera í fjarnámi og rúlluinnköllunarkerfi í í lok vikunnar eða þar til frístundamiðstöðin losnar og sjötti bekkur kemur heim. Hugmyndin er að níundi bekkur verði í frístundamiðstöðinni fram í lok apríl en þá flytur hann yfir í húsnæði Fjölbrautaskóla Vesturlands og sameinast þar tíunda bekk.
  • 10. bekkur flytur í glæsilega aðstöðu í Fjölbrautaskóla Vesturlands við Vallholt strax á mánudag og verður þar út skólaárið.

Við ætlum að halda úti kennslu í list- og verkgreinum eins og kostur er. Mötuneyti heldur áfram rekstri og koma bekkir inn í skólann tengt þessu. Einhverjar tilfærslur verða eins og gefur að skilja en það þróast bara í vikunni í góðri samvinnu allra aðila. Nemendur ganga á milli starfsstöðvar og skóla enda eru þetta ekki miklar fjarlægðir og við erum heilsueflandi skóli.

Enn á eftir að finna út úr einu og öðru en skólastjórn vinnur dag og nótt í leit að lausnum og svara ýmsu sem þarf að finna svör við. Við munu gera þetta saman og leysa málin, engin spurning með það.

Góðar baráttukveðjur

Skólasamfélagi Grundaskóla hafa borist baráttu- og hvatningarkveðjur frá öðrum stofnunum. Það gera sér allir grein fyrir þeim stórræðum sem við stöndum nú í. Allir þeir sem við höfum leitað til hafa tekið aðstoðarbeiðnum okkar vel og jafnvel stokkað starfsemi sína upp til að taka á móti okkar fólki. Svörin eru á einn veg... „gerum allt fyrir Grundaskóla og gerum það sem þarf.“

Í stórum og fjölþættum verkefnum er mikilvægt að skólafólk og foreldrar leggist á eitt og vinni vel saman. Þetta ár hefur verið afar flókið vegna Covid og nú bætist þetta verkefni við. Við ætlum ekki að hugsa um þetta tímabil sem vandamál heldur minnast þess sem upphaf að nýjum og betri tímum.

Nú er unnið að sótthreinsun og aukaþrifum um allt hús, allt starfsskipulag hefur verið endurskipulagt, allir nemendur færðir til eftir því sem best þykir og allt skólasamfélagið leggst samtaka á árarnar. Skólastarf Grundaskóla mun halda áfram á fullri ferð og við ætlum saman að sigla þessu skólaskipi með glæsibrag inn í sumarið.

Stórt hrós til ykkar allra, nemenda, starfsmanna og foreldra. Ég er stoltur af öllu mínu fólki.

Bestu kveðjur

Sigurður Arnar Sigurðsson

Skólastjóri