Hinsta kveðja

Í dag fer fram í Akraneskirkju útför Ingvars Ingvarssonar fv. kennara, skólastjórnanda og bæjarfulltrúa. Ingvar fæddist í Brákarey í Borgarnesi 28. apríl 1946 og lést þann 14. okt. síðastliðinn. Ingvar ólst upp á Akranesi og kom víða við á langri og farsælli starfsævi. Hann var meðal annars lengi aðstoðarskólastjóri í Brekkubæjarskóla og bæjarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn í bæjarstjórn Akraness.

Starfsmenn Grundaskóla vilja með þessari stuttu kveðju þakka Ingvari fyrir samfylgdina og gott samstarf í gegnum tíðina. Hann var bæði víðsýnn og fróður maður sem lá ekki á skoðunum sínum ef svo bar undir. Hann var mikill skólamaður sem fylgdi hagsmunum nemenda og starfsmanna sinna vel eftir. Honum var ekki bara umhugað um hagsmuni Brekkubæjarskóla heldur allra skólastofnana í bæjarfélaginu. Við minnumst með hlýju margra samverustunda þar sem skólamál voru rædd. Þegar leysa þurfti erfið mál kom reynsla og þekking Ingvars sér oft vel.

Fyrir hönd starfsmanna í Grundaskóla sendi ég eftirlifandi eiginkonu og aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Minning um góðan mann lifir.

Sigurður Arnar Sigurðsson

Skólastjóri.