Heimavinna fyrir, nemendur, foreldra og starfsmenn

Að æfa sig í þakklæti

Landlæknir sagði nýlega að það að finna fyrir þakklæti og láta gott af sér leiða styrkir ónæmiskerfið. Það er einnig almennt viðurkennt að það að finna fyrir þakklæti hefur jákvæð áhrif á líkamsstarfsemi okkar og lætur okkur líða vel. Þakklæti er því eitthvað gott og uppbyggjandi sem fólk á öllum aldri að æfa þegar á móti blæs í lífinu. Nú þegar stanslaust ótíðindi herja á samfélagið er tilvalið að þjálfa hugann og hugsa jákvætt. Það er svo margt jákvætt og þakkarvert í umhverfi okkar allra.

Hér á eftir er tillaga að æfingu sem er mikið notuð af afreksíþróttamönnum um víða veröld og ætti að gagnast í skólastarfi og daglegu lífi jafnvel.  Er ekki tilvalið að prófa?

Hvernig við æfum okkur í að vera þakklát?

Þessa æfingu getið þið gert sjálf eða með fjölskyldumeðlimum og vinum

• Teljið upp 10 atriði sem þið eruð þakklát fyrir, eitt atriði fyrir hvern putta t.d. það að eiga góða fjölskyldu, vera í íþróttum, eiga góða bekkjarfélaga, hafa aðgang að upplýsingum eða hafa góða heyrn. Þetta geta líka verið hversdagslegir hlutir eins og að vera með heitt vatn í krananum, eiga góðan tannbursta, eiga notalegt rúm eða kodda o.s.frv. Stundum er sagt að fólk átti sig ekki alltaf á aðstæðum. „enginn veit hvað átt hefur  fyrr en misst hefur.“

• Í hvert skipti sem þið teljið upp atriði, staldrið við og finnið fyrir þakklætistilfinningu í líkamanum. Hvernig lýsir tilfinningin sér? Finnið þið fyrir tilfinningu í hjartanu eða í maganum?

• Þessa æfingu er hægt að endurtaka á 1-2 daga fresti

Kennsluhugmyndin var í upphafi sett fram fyrir íþróttafólk og aðstandendur þeirra og er unnið í samvinnu við Sálstofuna, Núvitundarsetrið og Dr. Hafrúnu Kristjánsdóttir.