Fréttapunktar úr skólastarfi Grundaskóla janúar 2023

Gleðilegt ár gott fólk og takk fyrir gott samstarf á liðnu ári.

Árið 2023 verður án vafa viðburðarrríkt í skólastarfi Grundaskóla eins og mörg fyrri ár. Árið 2022 var okkur gott þó ýmislegt tengt húsnæðismálum hafi valdið vandræðum. Grundaskóli stækkar jafnt og þétt bæði hvað varðar nemendafjölda og húsrými. Við búum vel á mörgum sviðum og í skólanum er rekið öflugt skólastarf. Grundaskóli er eftirsóttur vinnustaður og við höfum á að skipa úrvals starfsfólki í öllum stöðum. Í þessum fréttapistli vill skólastjórn upplýsa skólasamfélagið um nokkra þætti sem eru framundan í  starfinu á nýju ári.

 

Nýbygging boðin út

Akraneskaupstaður og hönnuðir hafa nú lokið undirbúningi útboðsgagna fyrir nýjan Grundaskóla og uppbyggingu á C-álmu skólans. Óskað hefur verið eftir verktökum í verkið og skal framkvæmdum vera lokið í nóvember 2024. Þetta er stór áfangi sem bera að fagna því nú hefst formlega uppbygging á nýjum Grundaskóla sem mun halda utanum skólastarf okkar til framtíðar. Ný og glæsileg bygging hönnuð með nútíman og framtíðarhugsun í huga.

Við munum kynna fyrirhugaðar framkvæmdir betur á næstu vikum en nánar má lesa um útboðið á eftirfarandi slóð; 

https://byggingar.is/archives/36431?fbclid=IwAR1mzOSZVvm6G3TwZXpvCA6ku1xerjQ54d9jcLh7s63U3mwTfEt-oR6nKQ4

 

E-bygging tekin í fulla notkun

Nú í byrjun árs klára verktakar endurgerð á s.k. E-byggingu skólans eða gömlu stjórnunarálmunni. Þá eru komnar þrjár kennslustofur ásamt vinnusvæðum fyrir minni og stærri hópa. Skrifstofa skólans mun flytja úr bráðabirgða aðstöðu á bókasafni í framtíðaraðstöðu við aðalinngang skólans. Allt eru þetta velheppnaðar endurbætur sem munu nýtast skólastarfinu til framtíðar. Á fyrstu mánuðum ársins verða kennslustofur nýttar til bekkjarkennslu en þegar líður á vorið færast valgreinar á þetta kennslusvæði og verða þar til framtíðar ásamt fundaraðstöðu fyrir stoðþjónustu, starfsmenn og gesti skólans.

 

10. bekkur heim – uppsetning á söngleik

Í upphafi árs 2023 kemur 10. bekkur heim í Grundaskóla á ný eftir rúmlega tveggja ára fjarveru. Akraneskaupstaður hefur leigt húsnæði af Fjölbrautaskóla Vesturlands við Vallholt en nú er árgangurinn á heimleið. Þegar mest gekk á starfaði Grundaskóli í sjö byggingum dreift um allan bæ en verður sameinaður á Grundunum í byrjun árs 2023.

Fyrstu vikur ársins verða vissulega áskorun fyrir okkur en í byrjun mars verður húsnæði skólans komið í betra horf og nýjar kennslustofur tiltækar. Á þessu ári munu margir árgangar flytja til um stað og starfsemin verða endurskipulögð miðað við framtíðarskipan.

Ástæða þess að 10. bekkur heldur heim á þessum tímapunkti er vinna við lokaverkefni hópsins en það er uppsetning á söngleiknum Nornaveiðar sem við stefnum á að frumsýna á sal skólans í byrjun febrúar n.k. Söngleikurinn er risa skólaverkefni sem við ætlum að leysa með glæsibrag með öflugum nemenda og starfsmannahópi. Einnig munu fjölmargir foreldrar og velunnarar skólans koma að þessari uppsetningu.

 

Unglingadeild endurreist

Samhliða fyrrgreindum tilfærslum innan skólans verður unglingadeild endurreist í B-álmu við Víkurbraut. Margir hafa saknað þess að skólinn hafi ekki haft 8. - 10. bekk á einum stað og félagsstarf unglinga hefur átt í vök að verjast vegna húsnæðismála. Nú eru breytingar framundan og unglingadeild skólans sameinast á ný í sínum húsakynnum.

 

Grundaskóli tekur yfir húsnæði Garðasels – frístund flytur

Nú er uppbyggingu á nýjum leikskóla að ljúka og Garðasel flytur alla starfsemi sína þangað í janúar. Á sama tímapunkti tekur Grundaskóli við fyrri aðstöðu leikskólans og sameinar starfsemina. Frístund skólans mun flytja af yngsta stiginu og yfir á það sem hér eftir verður kallað Grundasel. Þessar breytingar eru stór breyting í skólastarfinu því segja má að Grundaskóli hafi í raun verið tvísetinn allt til þessa dags.

Auk frístundastarfs þá munu listgreinar s.s. textíll, myndlist og matreiðsla færa kennsluaðstöðu sína yfir á Grundasel og verða þar til að endurbyggingu C-álmu er lokið 2024. Til framtíðar mun Grundasel vera miðstöð listastarfs og valgreinakennslu.

 

Átta nýjar lausar kennslustofur

Í byrjun árs hefjast framkvæmdir á suður hluta skólalóðar á móts við Akraneshöllina en þar verða reistar átta lausar kennslustofur fyrir Grundaskóla. Þessar kennslustofur verða allar komnar á sinn stað og tilbúnar til notkunar í byrjun mars. Vonast var til að framkvæmdum yrði lokið fyrr en vegna tafa erlendis verða þær ekki allar tilbúnar fyrr. Þessi kennsluaðstaða er ætluð fyrir 6. og 7. bekk næstu árin eða þar til að öllum byggingarframkvæmdum er að fullu lokið við skólann.

 

Breytingar fyrirhugaðar á stjórnskipulagi og stoðþjónustu

Samhliða hönnun á nýjum Grundaskóla hefur verið unnið að breytingum á stjórnskipulagi skólans sem tekur mið af þeim stærðarbreytingum sem hafa orðið á liðnum árum og nýjum kröfum samfélagsins. Skólastjórn og starfsmenn Grundaskóla eru óhræddir við að gera breytingar og markmiðið er ávallt að veita sem besta þjónustu í framsækinni menntastofnun. Grundaskóli er orðinn einn fjölmennasti skóli landsins en stjórnunarumfang skólans hefur ekki breyst samhliða þessari fjölgun. Hið sama má segja um ýmsa þætti stoðþjónustunnar en áhersla hefur verið lögð á þjónustuliði en sparað í stjórnun.

Á næstu mánuðum munum við kynna breytingar um fjölgun stjórnenda og breytingar á skipulagi, verkaskiptingu og áherslum í stoðþjónustu sem taka mið af stærð skólans og bættri þjónustu. Aukin áhersla er lögð á uppeldisráðgjöf við foreldra og forráðamenn í anda snemmtækrar og markvissrar íhlutunar.

 

Efling foreldrastarfs

Skólaráð og stjórn foreldrafélags skólans hefur fundað upp á síðkastið um hvernig megi efla starf foreldrafulltrúa í öllum árgöngum og í Grundaskóla almennt. Fljótlega á nýju ári verður boðað til samráðfundar með bekkjarfulltrúum þar sem línur verða lagðar og ákvarðanir teknar til framtíðar. Vilji stendur til að stórefla foreldrastarf í skólanum og eru allir sem áhuga hafa á að koma að slíku starfi hvattir til að hafa samband við foreldrafélagið, umsjónarkennara eða skrifstofu skólans.

 

Fræðslufundir með sálfræðingi

Nú í janúar hefst fræðsla fyrir foreldra og forráðamenn sem við nefnum „vefkaffi“ með sálfræðingi. Um er að ræða rafræna kynningafundi á Microsoft Teams þar sem foreldrum og forráðamönnum barna í Grundaskóla gefst tækifæri til að fá fræðslu og leiðbeiningar um uppeldi barna og ungmenna. Ákveðið þema verður tekið fyrir á hverjum fundi t.d. kvíði barna, hvernig sjálfsmynd og sjálfstraust þróast, hvernig á að vinna með tilfinningavanda, samskiptavanda o.s.frv.

Samstarfsaðili okkar, Erlendur Egilsson, er fimm barna faðir og reyndur sálfræðingur. Hann hefur m.a. starfað sem sálfræðingur í grunnskólum, unnið á Barna og unglingageðdeild Hringsins (BUGL) ásamt sjálfstæðum sálfræðistörfum.

 

Nýtt samskiptakerfi með haustinu

Það eru ýmis úrlausnarefnin sem við vinnum að og sumar breytingar vekja litla ánægju hjá okkur. Eitt af þessum verkefnum eru breytingar á samskiptakerfi en Grundaskóli innleiddi Weduc samskiptakerfið fyrir um þremur árum. Reynslan af Weduc er góð og foreldrar nemenda almennt sáttir með kerfið. Hins vegar liggur fyrir að ekki er lengur vilji hjá þjónustuaðila í Bretlandi að uppfæra og þjónusta kerfið fyrir íslenskar aðstæður. Við í Grundaskóla eigum því engra annarra kosta völ en að færa okkur yfir í önnur hefðbundin samskiptakerfi sem eru notuð á Íslandi. Nánari upplýsingar munu berast með vorinu og breytingar taka gildi í haust við upphaf nýs skólaárs.

 

Nýtt kennslumannvirki á Jaðarsbökkum

Uppbygging á nýju íþróttahúsi á Jaðarsbökkum gengur vel og er á áætlun. Hér er um afar mikilvæga framkvæmd að ræða fyrir Grundaskóla enda hefur skólinn fyrir löngu sprengt af sér núverandi aðstöðu í íþróttamannvirkjum. Þetta á ekki síst við búningsklefana. Ákveðin vandræði eru einnig með samnýtingu á Jaðarsbakkalaug með almenningi sem kann að kalla á breyttar áherslur með haustinu. Skólastjórn mun taka upp umræðu um þessi mál með bæjaryfirvöldum á næstunni og í sameiningu taka ákvörðun um næstu skref. Við munum kynna þessi mál frekar á næstu vikum og mánuðum.

 

Nemendum og starfsmönnum fjölgar

Fyrir nokkrum dögum bárust fréttir um að Akurnesingar væru orðnir 8000 í fyrsta skipti í sögunni. Þetta eru ánægjulegar fréttir enda er samfélagið okkar í sókn. Ljóst er að Grundaskóli stækkar en fjölgun nemenda frá hausti slagar í meðal bekkjarstærð.  Margar húseignir eru í byggingu í okkar skólahverfi og ljóst að Grundaskóli mun fara yfir 700 nemendur innan skamms.

Samhliða fjölgun nemenda mun starfsmönnum fjölga einnig. Í haust er líklegt að tveir árgangar skólans fari í fjórar bekkjardeildir. Þrátt fyrir tímabundin húsnæðisvandræði þá er Grundaskóli sem betur fer eftirsóttur vinnustaður og það er mikið ánægjuefni fyrir skólasamfélagið. Reikna má með að starfsmannafjöldi verði bráðlega kominn yfir 130 ef allt er talið. Það gerir Grundaskóla að fjömennasta vinnustað bæjarfélagsins en rúmlega 10% bæjarbúa (nemendur og starfsmenn)  vinna í skólanum.

 

Sókn er besta vörnin

Eins og sjá má af fyrrgreindum punktum þá er margt spennandi í gangi í skólanum okkar og markvisst er unnið að því að bæta hluti sem betur mega fara. Við trúum að sókn sé besta vörnin og lykill að góðu skólastarfi sé gott samstarf heimila og skóla. Uppbyggileg samvinna þar sem allir aðilar leggjast á eitt um að skapa börnum okkar framúrskarandi aðstæður til að blómstra á ólíkan hátt.

Grundaskóli er stór og öflug menntastofnun og framundan eru sannanlega spennandi tímar. Eftir miklar húsnæðishrakningar sést loks til sólar, nýr og glæsilegur Grundaskóli er kominn í markvissa uppbyggingu. Við horfum bjartsýn fram veginn.

 

Í von um áframhaldandi gott samstarf

Kær kveðja,

Skólastjórn Grundaskóla