„Breytum krónum í gull“

 

Góðgerðardagur til styrktar hjálparstarfi í Malaví er á fimmtudag

Upplýsingar

Undanfarna daga og vikur hafa nemendur og starfsfólk Grundaskóla verið að undirbúa svokallaðan Malavímarkað sem fram fer í Grundaskóla, fimmtudaginn 24. nóvember og hefst klukkan 11:30 og lýkur um klukkan 13:00.

Hvað gerist þá

Til sölu verður fjölbreytilegur varningur sem búinn er til af nemendum Grundaskóla en allur ágóði rennur til styrktar skólastarfi og hjálparstarfi fyrir ungar konur og börn í Malaví, einu af fátækustu ríkjum heims. Þennan dag geta gestir rölt á milli sölubása, skoðað skólann, rætt við nemendur og starfsfólk og slakað á inni á sal skólans þar sem hægt er að kaupa skúffukökur og rjúkandi drykki. Jafnframt bjóða nemendur skólans upp á tónlistaratriði.

Allir bæjarbúar eru hjartanlega velkomnir í Grundaskóla og við ætlum að blása gleði og bjartsýni um allt samfélagið okkar. Hér mun fólk vonandi finna hreinan tón, orku og bjartsýni og einlægan vilja til að gera heiminn okkar betri.