Minningarorð Ingibjörg Haraldsdóttir

Ingibjörg Haraldsdóttir, kennari í Grundaskóla var fædd 9. ágúst 1961.  Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands Akranesi þann 28. október s.l. eftir harða baráttu við erfið veikindi.

Ingibjörg hóf fyrst störf sem kennari hjá skólastofnunum Akraneskaupstaðar í ágúst 2006. Fyrsti viðkomustaður var Leikskólinn Garðasel en strax ári seinna hóf hún störf í Brekkubæjarskóla. Árið 2016 ákvað hún að færa sig yfir í Grundaskóla og starfaði þar allt til dánardags. Hún starfaði lengst af sem umsjónarkennari á mið- og unglingastigi en sinnti einnig störfum tengt félags- og forvarnarmálum.

Ingibjörg var virk í félagsmálum og var kjörin í stjórnir og nefndir bæði hjá Akraneskaupstað og frjálsum félagasamtökum. Hún var um tíma varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar. Ingibjörg var virk í starfi íþróttahreyfingarinnar og sinnti þar sjálfboðastarfi til fjölda ára. Hún tók einnig þátt í starfi Skagaleikflokksins og koma að uppsetningu og viðburðum á þeim vettvangi.

Við samstarfsmenn Ingibjargar fundum vel fyrir metnaði hennar og vilja fyrir mennta-, félags- og forvarnarmálum. Hún tók virkan þátt í foreldrastarfi bæði innan skóla og íþróttahreyfingarinnar. Á þeim vettvangi var hún hvatamaður að fjölbreyttu fræðslustarfi bæði fyrir börn og foreldra.

Fyrir tveimur árum hóf hún framhaldsnám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf. Allt til loka dags talaði hún fyrir mikilvægi þessarar vinnu í skólastarfi. Hún hvatti okkur samstarfsmenn til dáða og lá ekki á skoðunum sínum um það sem var gott og hitt sem betur mátti fara. Hún var ávallt hreinskiptin í framkomu og sinnti starfi sínu af einstakri alúð og natni. Hún hafði mikinn metnað fyrir hönd nemenda sinna, skóla og bæjarfélags.

Það er erfitt að kveðja góðan samstarfsmann hinstu kveðju. Ingibjargar verður sannanlega sárt saknað í Grundaskóla. Hún var traustur hlekkur í öflugum starfsmannahópi og það var gott að eiga hana að þegar á reyndi. Ingibjörg var á vissan hátt frumkvöðull í starfi sínu því farsældarhugsun og áhersla á mikilvægi félags og samskiptafærni var útgangspunktur í hennar starfi. Hún lagði sig fram við að laða fram hið jákvæða í hverju máli og lifa í ljósinu með trú á gott samfélag og samferðarfólk.

Skólastjórnendur Grundaskóla vilja fyrir hönd starfsmanna og nemenda skólans votta eftirlifandi eiginmanni Hallgrími, börnum og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð. 

Minning Ingibjargar Haraldsdóttur mun lifa.

Grundaskóli 7. nóv. 2023.

Sigurður Arnar Sigurðsson, skólastjóri.