Fréttir úr 4. bekk 2023

Himingeimurinn

 

Það er búið að vera mikið líf og fjör í Eyjunni hjá okkur í 4.bekk síðustu vikur. VIð vorum að vinna með himingeiminn og settum meðal annars upp sýningu þar sem við sýndum gestum og gangandi afrakstur vinnu okkar.

Við unnum í hópum þvert á árganginn og tók vinnan rúmar þrjár vikur. Verkefnin voru mismunandi og fékk hver hópur tækifæri á að útfæra og hanna sitt verkefni. Pappakassar, límbyssur, álpappír, efnisbútar,  blöðrur,dagblöð, spítur, jólaseríur eru dæmi um þann efnivið sem börnin notuðu við þessa vinnu. Afraksturinn var m.a. Stjórnborð NASA, stjörnukíkar, sólkerfið, plánetur, jörðin, geimför og geimfarar, tunglið,  tunglbílar, svarthol, halastjörnur og eldflaugar.

Samhliða hópavinnunni unnum við m.a. einstaklingslega verkefni í úrklippubækur, öfluðum heimilda úr bókum, sömdum ljóð, fórum í vettvangsferðir og horfðum á fræðslu- og skemmtimyndbönd um efni tengt himingeimnum.

Við erum afar stolt af þessari vinnu okkar og þökkum við öllum þeim sem komu á sýninguna.

Meðfylgjandi eru myndir sem segja meira en mörg orð!

Bestu kveðjur, krakkarnir í 4.bekk