Vefkaffifundir sálfræðings með foreldrum og forráðamönnum barna

Nýtt samstarfsverkefni foreldra barna í Grundaskóla og Erlends Egilssonar, sálfræðings

Um er að ræða rafræna kynningafundi á Microsoft Teams þar sem foreldrum og forráðamönnum barna í Grundaskóla gefst tækifæri til að fá fræðslu og leiðbeiningar um uppeldi barna og ungmenna. Hér gefst tækifæri til að ræða málin saman og fræðast um hvað hefur gefist vel í uppeldismálum. Ákveðið þema verður tekið fyrir á hverjum fundi t.d. kvíði barna, hvernig sjálfsmynd og sjálfstraust þróast, hvernig á að vinna með tilfinningavanda, samskiptavanda o.s.frv. Þema hvers fundar verður kynnt þegar tími fundar nálgast en einnig geta áhugasamir haft áhrif og sent inn óskir um umfjöllunarefni.

Fyrsta vefkaffi Grundaskóla verður haldið um miðjan janúar árið 2023 og vonast skólastjórn til að viðtökur foreldra verði góðar. Hér er um tilraunaverkefni að ræða til að styrkja skólasamfélagið í að halda utan um börnin okkar og efla á allan hátt.

Samstarfsaðili okkar, Erlendur Egilsson, er fimm barna faðir og reyndur sálfræðingur. Hann hefur m.a. starfað sem sálfræðingur í grunnskólum, unnið á Barna og unglingageðdeild Hringsins (BUGL) ásamt sjálfstæðum sálfræðistörfum. Erlendur hefur sinnt rannsóknum á þroska og hegðun barna í doktorsnámi sínu.

Við vonum að sem flestir foreldrar sjái sér fært að mæta rafrænt og taki þátt í þessari tilraun með okkur, en ef vel gengur stefnum við að nokkrum slíkum fræðslufundum á næstu mánuðum.

Grundaskóli er  OKKAR