Upplýsingar mötuneytið og skólahald fimmtudaginn 13. janúar nk.

 

Mötuneytisþjónusta fyrir 1.- 4. bekk hefst á miðvikudag

Skóli fellur niður hjá 1. – 9. bekk á fimmtudag vegna bólusetningar

Það er sannkölluð áskorun að halda úti skóla í þeim heimsfaraldri sem nú gengur yfir. Í Grundaskóla eru daglega 8 – 900 einstaklingar í vinnu og þar að auki er meirihluti barna óbólusettur. Til dæmis er erfitt að tryggja það eitt að fleiri en 50 manns séu ekki saman í hólfi.

Allt okkar skipulag gengur út á að reyna að verja hvern árgang sem sóttvarnarhólf. Reyna að tryggja sem minnsta blöndun milli hópa en á sama tíma að bjóða upp á fjölbreytt og skemmtilegt skólastarf. Því til viðbótar eru þau börn sem eru í mestri hættu í varnarsóttkví og skólinn reynir að sinna heimakennslu eins og kostur er.

Það hefur gengið á ýmsu þessa fyrstu viku ársins. Við misstum út einn árgang í sóttkví á öðrum degi og höfum fengið inn nokkur Covidsmit í hópinn bæði meðal nemenda og starfsmanna. Mikil veikindi eru meðal nemenda en einhver flensa virðist herja á þessa dagana auk Covid.

Við höfum markvisst leitað leiða til að opna mötuneytið á ný og eftir samráð við sóttvarnaryfirvöld er niðurstaðan að reyna að opna þjónustu að hluta á miðvikudag. Eingöngu er þó hægt að þjónusta yngstu nemendur skólans eða nemendur í 1. – 4. bekk. Staða sóttvarna og regluverk því tengdu mun ráða hvenær aðrir árgangar komast í mötuneytið og mun skólastjórn upplýsa foreldra um leið og það liggur fyrir. Vonandi léttir fljótlega til í samfélaginu og skólastarf getur verið með eðlilegum hætti.

Fimmtudaginn 13. janúar verður ekki skóli hjá 1. – 9. bekk vegna bólusetningar nemenda í Grundaskóla. 10. bekkur hefur kennsluaðstöðu í FVA og er hefðbundin dagskrá hjá þeim árgangi þennan dag. Foreldrar/forráðamenn eiga að hafa fengið tilkynningu frá heilbrigðisyfirvöldum vegna þessarar framkvæmdar.

Frístund verður hins vegar opin eftir hádegið samkvæmt hefðbundinni starfsáætlun.

Við hvetjum alla aðila skólasamfélagsins til að fara varlega og tryggja persónulegar sóttvarnir. Ef grunur er um veikindi á ekki að mæta til skóla heldur fara í sýnatöku hjá heilbrigðisyfirvöldum.

Bestu kveðjur,

Skólastjórn