Skipt um kúrs í sóttvörnum

Fyrr í dag tilkynntu stjórnvöld breytingar á reglum um sóttkví og smitgát. Samkvæmt þeim á sóttkví nú aðeins við um einstaklinga sem útsettir eru fyrir smitum innan veggja heimilisins. Næstkomandi föstudag mun heilbrigðisráðherra einnig leggja fram áætlun um þrepaskipta afléttingu takmarkana í íslensku samfélagi.
 
Reglugerð um takmarkanir á skólastarfi er enn óbreytt og heldur hún gildi sínu. Nýjustu upplýsingar um skólastarf og COVID má finna á vef menntamálaráðuneytisins og þar má einnig finna svör við algengum spurningum.

Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið covid19@mrn.is
 
Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að þótt þessar breytingar muni létta álagi af starfsfólki skólanna vegna smitrakningar og tíðra forfalla vegna sóttkvíar sé fyrirsjáanlegt að smitum muni halda áfram að fjölga í umhverfi skólanna. 
 
Ljóst er að mörgum spurningum er enn ósvarað um tilhögun skólastarfs næstu daga og vikur. Nú stendur yfir vinna í ráðuneytum mennta- og heilbrigðismála til að skýra myndina.