Samræmd könnunarpróf í 9. bekk 2020

 

Stutt samantekt vegna Samræmdra könnunarprófa í 9. bekk 2020

 

Árangur Grundaskóla er í heildina ágætur. Líkt og mörg fyrri ár skila nemendur mjög góðum árangri í stærðfræði eða vel yfir landsmeðaltali. Þessi árgangur hefur auk þess styrkt stöðu sína frá fyrra ári og er í mikilli framför í námsgreininni. Þessar niðurstöður eru fagnaðarefni og frábært að skólanum hafi tekist að halda stöðu sinni í þessari námsgrein. Fyrir um ári voru vísbendingar uppi um að nemendur væru að gefa eftir en með markvissu átaki hefur þeim tekist að snúa þeirri þróun við og gott betur.

Niðurstöður er varða íslensku eru slakari en í stærðfræði en eru þó um landsmeðaltal. Munur á þessum námsgreinum skýrist helst af að ekki hefur tekist að skila sterkustu nemendunum inn í toppsæti líkt og gerist í stærðfræðinni. Bestu nemendur Grundaskóla detta niður í B eða B+ í stað þess að skila A í einkunn og það eru viss vonbrigði. Á móti kemur að sá hluti sem er slakari skilar sér sterkari inn en almennt gerist í landinu þannig að okkar nemendur þjappast of mikið á miðlagið. Mikil vinna er nú í gangi að skoða íslenskukennsluna og er markmiðið að styrkja stöðu skólans á þessum mælikvarða. Það á að vera raunhæft þar sem sá hópur sem virðist helst þurfa að herða á er sá hluti nemenda sem á að vera námslega sterkastur. Einnig er vísbending um að við getum gert betur í  íslensku þar sem að sömu nemendur skila mjög góðum árangri í stærðfræði. Þetta munstur er ekki bara bundið við þetta próf eða þennan árgang heldur endurtekur sig ítrekað.

Enska hefur verið í lægð um nokkurn tíma og nemendur Grundaskóla hafa skilað lakari niðurstöðu í Samræmdum könnunarprófum en vonast hefur verið til. Grundaskóli fór fyrir ári í ákveðið átak í enskukennslu og það skilar sér strax nú í þessum niðurstöðum. Nemendur Grundaskóla sýna verulega bætingu frá fyrri árum og skilar það sér í að einkunnir eru nú á landsmeðaltali. Markmiðið okkar er að styrkja þennan árangur enn frekar á næstu misserum með markvissum vinnubrögðum og auknum kröfum um árangur í námsgreininni.

 

Helstu niðurstöður Grundaskóla má sjá í eftirfarandi töflum: