Svokölluð „Óvissuferð“ er skráð á matseðli Grundaskóla alla föstudaga.
Þetta heiti hefur vakið nokkra athygli og hafa nokkrir spurst fyrir um hvað sé eiginlega í matinn þessa daga. Þessari spurningu er erfitt að svara á einfaldan hátt því fullkomin óvissa er um hvað er í boði í hverri viku.
Eitt er þó víst að allir fá góðan mat og ekki er víst að allir aldurshópar fái það sama.
„Óvissuferð“ er tilraun okkar í Grundaskóla til að vinna með matarsóun en á föstudögum ætlum við annars vegar að vinna með matarafganga sem falla til í mötuneytinu og hins vegar að matreiða nýja rétti úr matvælum sem eru til. Segja má að „óvissuferð“ sé metnaðarfull tilraun að gera eitthvað skemmtilegt og óvænt en á sama tíma að vinna með matarsóun og stuðla aukinni umhverfishugsun í okkar skólasamfélagi.