Minningarorð

Ingibjörg Eggertsdóttir, kennari var fædd 7. febrúar 1959.  Hún lést 28. desember 2021 eftir harða baráttu við erfið veikindi.

Ingibjörg hóf fyrst störf sem kennari í ágúst 1982. Hún starfaði lengst af sem íþróttakennari bæði í Brekkubæjarskóla og Grundaskóla á Akranesi, en síðar sem umsjónarkennari og sérkennari, á yngsta- og miðstigi Grundaskóla. Ingibjörg hóf störf í Grundaskóla í janúar 1998 og var starfsmaður hans allt til dánardags.

Leiðir okkar lágu fyrst saman í Bjarnalaug árið 1988. Ingibjörg kenndi þá íþróttir í Brekkubæjarskóla og ég var kallaður inn sem nýstúdent til að leysa samstarfsmann hennar af um tíma. Strax í upphafi kynntist ég Ingibjörgu sem hreinskiptri manneskju sem hafði mikinn metnað fyrir störfum sínum. Þá strax og alla tíð síðan sá ég að Ingibjörg sinnti starfi sínu ávallt af einstakri alúð og natni. Hún hafði mikinn metnað fyrir hönd nemenda sinna og skóla.

Íþróttir, heilsuefling og útivist áttu einnig hug hennar allan og fáir samferðamenn lifðu heilsusamlegra líferni. Þegar við samstarfsmenn hennar mættum til vinnu var Ingibjörg ávallt búin að synda langsund eða taka á því í ræktinni. Reyndar má segja að heilsuefling og vinna hafi verið sameinuð því Ingibjörg bjó yfir ótrúlegri orku og nánast hljóp á milli starfsstöðva.

Ingibjörg var hæglát manneskja og vildi láta lítið fyrir sér fara. Þeir sem kynntust henni, þekktu leiftrandi húmor hennar. Ósjaldan hitti maður hana í skólanum, á íþróttavellinum eða á öðrum stöðum. Þá átti hún til að halla sér að manni og hvísla einhverri athugasemd sem oftar en ekki var sprenghlægileg.

Það er erfitt að kveðja góðan samstarfsmann hinstu kveðju. Ingibjargar verður sárt saknað í Grundaskóla. Hún var traustur hlekkur í öflugum starfsmannahópi og það var gott að eiga hana að þegar á reyndi.

Ég vil fyrir hönd starfsmanna og nemenda skólans votta eftirlifandi eiginmanni Stefáni, dætrunum Birtu og Grétu og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð. 

Minning Ingibjargar Eggertsdóttur mun lifa.

Sigurður Arnar Sigurðsson, skólastjóri.