„Breytum krónum í gull“

Upplýsingar

Undanfarna daga og vikur hafa nemendur og starfsfólk Grundaskóla verið að undirbúa svokallaðan Malavímarkað sem fram fer í Grundaskóla, fimmtudaginn 24. nóvember og hefst klukkan 11:30 og lýkur um klukkan 13:00. Ekki eru allir sem þekkja til þessa verkefnis og því vil ég senda öllu skólasamfélaginu eftirfarandi upplýsingar.

Hvað gerist þá

Til sölu verður fjölbreytilegur varningur sem búinn er til af nemendum Grundaskóla en allur ágóði rennur til styrktar skólastarfi og hjálparstarfi fyrir ungar konur og börn í Malaví, einu af fátækustu ríkjum heims. Þennan dag geta gestir rölt á milli sölubása, skoðað skólann, rætt við nemendur og starfsfólk og slakað á inni á sal skólans þar sem hægt er að kaupa skúffukökur og rjúkandi drykki. Jafnframt bjóða nemendur skólans upp á tónlistaratriði.

Allir bæjarbúar eru hjartanlega velkomnir í Grundaskóla og við ætlum að blása gleði og bjartsýni um allt samfélagið okkar. Hér mun fólk vonandi finna hreinan tón, orku og bjartsýni og einlægan vilja til að gera heiminn okkar betri.

Forsagan

Góðgerðardagur Grundaskóla hefur ekki verið haldinn s.l. tvö ár en var haldinn árlega til fjölda ára eða allt frá árinu 2007. Malavísöfnunin hófst þegar nemendur skólans ákváðu að leggja niður þá ára gömlu hefð að gefa hverjum öðrum jólagjafir en setja í stað þess ákveðna upphæð í söfnun þar sem markmiðið var að láta gott af sér leiða og gefa þeim sem þurfa meira á því að halda.

Síðar hófst sala muna til að gefa öllu samfélaginu kost á að vera með og leggja málefninu lið. Leyfa gestum og gangandi að koma inn í skólann okkar og finna þann sköpunarkraft sem í okkur býr.

Í gegnum árin hafa safnast heilmiklar fjárhæðir sem Rauði krossinn á Íslandi hefur haft milligöngu með að koma í réttar hendur. RKÍ stendur að umfangsmiklu hjálparstarfi í þessu fátæka landi og snýr stuðningur Grundaskóla fyrst og fremst að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, styðja ungar mæður og börn til náms. Framlag Grundaskóla skiptir nú mörgum milljónum króna en verkefnið er stórt og vandi og neyð fólks mikil.

Breytum krónum í gull

Yfirskrift söfnunar í Grundaskóla ber yfirskriftina „breytum krónum í gull.“ Það vísar til þess að við gefum krónur sem breyta ekki öllu í lífi okkar hér heima en breytist í gull hjá þeim sem á ekkert. Einnig vísar yfirskriftin til þess að þeir munir sem eru unnir af nemendum og starfsmönnum hafa endurnýtingu að leiðarljósi. Við vinnum með hluti sem eru einskis metnir og breytum í fallega muni sem gleðja. Við vinnum með hugvit og umhverfishugsun þannig að kostnaður sé sem minnstur í framleiðslu og afraksturinn sé sem mestur fyrir söfnunina.

Af hverju Malaví

Það er vissulega fjöldi fólks um allan heim sem þarfnast aðstoðar. Við höfum hins vegar einbeitt okkur að hjálparstarfi í Malaví. Ástæðan er einkum þríþætt. Í fyrsta lagi að með öruggu samstarfi við RKÍ tryggjum við að fjármunir sem við söfnum komast til þeirra sem þurfa á því að halda. Í öðru lagi þá er Malaví, samkvæmt skýrslum Samvinnuþjóðanna og hjalparstofnana, eitt af fátækustu ríkjum heims og glímir við hvað erfiðastan vanda allra ríkja. Þriðja ástæðan er vilji Grundaskóla að styðja fólk til sjálfshjálpar og styðja börn og ungmenni til náms. Þróunar- og hjálparstarf í þorpunum Chiradzulu og Mwanza fellur vel að þeim markmiðum.

Stolt af verkefninu

Við í Grundaskóla erum afar stolt af þessu verkefni og hvetjum sem flesta til að mæta í Grundaskóla til að eiga notalega stund og styrkja gott málefni í leiðinni. Til þessa hafa m.a. skólagjöld verið greidd, skólabúningar og skólavörur keyptar auk þess sem mikill fjöldi barna hefur fengið félagslegan stuðning frá sjálfboðaliðum Rauða krossins. Mörg barnanna eru munaðarlaus vegna alnæmisfaraldurs og hafa fjármunir einnig nýst til umönnunar þeirra.

Við höfum staðfestar heimildir fyrir því að söfnunarfé hefur skilað miklu á vettvangi og fyrra söfnunarfé hefur sannanlega breyst úr krónum á Akranesi í gull í Malaví.

 

Sigurður Arnar Sigurðsson

 

Skólastjóri