Grundaskóli verður "bleikur" í október

Líkt og mörg síðustu ár styður Grundaskóli í verki átak Krabbameinsfélags Íslands og lýsir miðrými skólans í bleikum lit allan október mánuð. Í ár er miðrými skólans einnig skreytt bleikum blöðrum til að minna á átakið og fegra starfsumhverfið bleikum og hlýlegum blæ.

Á miðvikudag, síðasta dag fyrir vetrarleyfi, klæðast starfsmenn og nemendur einnig bleikum fötum til að minnast enn frekar á þetta átak og sýna málefninu stuðning. Baráttan gegn krabbameini kemur okkur öllum við óháð aldri, kyni, búsetu og aðstæðum almennt.

Við hvetjum jafnframt alla aðra til að styðja árveknis- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins t.d. með kaupum á bleiku slaufunni eða með öðru framlagi.