Garðasel verður Grundasel

Þetta er bara að bresta á....

Í dag hófust flutningar frístundar Grundaskóla yfir í húsnæði (gamla) Garðasels. Við vinnum nú af krafti í margvíslegum endurbótum s.s. að mála húsnæðið, endurnýja húsmuni o.fl. Nemendur og starfsmenn geta vart beðið eftir formlegum flutningum og vígslu á nýrri aðstöðu. Þessar breytingar verða algjör bylting fyrir frístundastarfið í Grundaskóla.

Eins og mörg ykkar vita, eru fyrirhugaðar tímabundnar breytingar og tilfærslur í Grundaskóla. 6. og 7. bekkur er að flytja í nýjar lausar kennslustofur á lóð skólans. Við höfum markvisst unnið með lausnir á húsnæðismálum sem nú loks sér fyrir endann á. Allar þessar tilfærslur hafa ekki reynst okkur auðveldar enda höfum við glímt við mestu húsnæðisvandræði í skólasögu bæjarfélagsins. Nemendur og starfsmenn hafa sýnt ótrúlega þrautseigju og dugnað s.l. tvö  ár og leyst mörg ólík vandamál tengt húsnæðismálum.

Í lok janúar verður opnað útboð á allsherjarendurbótum á C-álmu skólans eða gamla skólanum eins og einhverjir kalla bygginguna. Við höfum unnið að því að flytja alla starfsemi úr álmunni s.l. tvö ár og nú lýkur því verki.

Því miður hafa orðið margvíslegar seinkanir á framkvæmdum og ein af þeim er að lausar kennslustofur sem áttu að vera klárar í janúar verða ekki komnar fyrr en í byrjun mars. Við munum leysa þetta millibil m.a. með nýtingu á húsnæði Akraneskaupstaðar á Garðavöllum. Allar þessar breytingar reyna á skólasamfélagið en eftir hrikalega erfiðleika tengt húsnæðismálum og heimsfaraldri sjáum við loks til sólar. Seinkun framkvæmda um mánuð mun ekki slá okkur út af laginu.

Nú er viðspyrnan að hefjast fyrir alvöru. 

Á næstu vikum og mánuðum er margt spennandi að gerast í skólanum okkar. Skólaskip Grundaskóla mun sigla seglum þöndum út úr brimskaflinum og við lofum góðu partý þegar allt er klárt.

Grundaskóli er  OKKAR