Covid-19 – förum varlega og hugum að sóttvörnum

Fréttir berast nú frá almannavörnum að ekki hafi tekist að rekja öll Covid smit í samfélaginu og að ákveðin hætta sé á að ný bylgja rísi á næstunni. Tveir heilir skólar hafa verið settir í úrvinnslusóttkví í Reykjavík en það eru Laugarnesskóli og Laugalækjarskóli.

Ástæða þessa er að í gær höfðu nokkrir nemendur greinst með COVID-19. Heilbrigðisyfirvöld vinna nú að greiningarvinnu og rakningu. Í dag kemur síðan í ljós hversu margir þurfa að fara úr úrvinnslusóttkví og yfir í almenna sóttkví og lengri einangrun.

Það sem er nýtt í stöðunni núna eru hversu mörg börn eru að greinast og það kann að kalla á hertar öryggisvarnir bæði í skóla og á öðrum stöðum. Grundaskóli hvetur því alla til að huga vel að sóttvörnum. Muna handþvott og sprittun og virða nálægðarmörk eins og kostur er.

Ef nýjar fréttir berast af mikilli fjölgun smita kann skólinn að þurfa að grípa til enn harðari aðgerða s.s. að skipta nemendum og starfsmönnum í sóttvarnarhólf, skerða skólastarf og taka upp fjarnám. Vonandi þarf þó ekki að koma til þess og við náum að snúa núverandi þróun við og smitum fækkar á ný. Nú reynir enn og aftur á samtakamátt allra aðila.

Förum varlega og virðum reglur almannavarna um sóttvarnir.