Að vera "vel greindur"

Stundum er sagt að ákveðinn einstaklingur sé "bráðgreindur". Það er í merkingunni að viðkomandi sé klár eða getumikill á einhverju sviði og oftast vísar slíkar greindamælingar til bóklegra þekkingaratriða. Á nítjándu öld reyndu menn að greina sálargáfu fólks með því að þreifa á höfuðkúpu fólks. Síðar fundu menn út að greind er ekki vísun til einhvers eins heldur miklu frekar margra hluta. Nokkur samstaða virðist vera um að greind feli í sér getu til að beita rökhugsun, leysa vandamál eða þrautir, hugsa óhlutbundið (e. abstract), skilja hugmyndir og tungumál og að læra.

Fjölgreindarkenning sálfræðingsins Howards Gardners er í alla staði áhugaverð. Gardner telur að greindarhugtakið eigi að ná yfir alla getu fólks til að vinna úr upplýsingum og skapa eitthvað nýtt; samkvæmt henni er því ekki bara til ein gerð greindar heldur átta og jafnvel fleiri tegundir. Allir eru greindir í þeirri merkingu en hafa bæði styrkleika og veikleika á einhverjum sviðum. Það hvernig fólki gengur að fóta sig er mest spurning um að nýta hæfileika sína og hafa sjálftraust.

Samkvæmt kenningum Gardners eru greindarsviðin a.m.k. átta.

Málgreind er hæfileikinn til að vinna með tungumál. Fólk með mikla málgreind hefur gjarnan mikinn orðaforða, skrifar góðan texta, á auðvelt með að flytja ræður og að læra erlend tungumál.

Rök- og stærðfræðigreind er hæfileikinn til óhlutbundinnar hugsunar, rökhugsunar og að vinna með tölur og mynstur. Rök- og stærðfræðigreindir eru gjarnan góðir í stærðfræði, vísindum og forritun, svo dæmi sé tekið.

Rýmisgreind er hæfileikinn til sjón- og rúmskynjunar. Hafi menn mikla rýmisgreind eiga þeir auðvelt með störf þar sem unnið er með liti, lögun, form og svo framvegis, svo sem listir, handverksgerð og arkitektúr.

Líkams- og hreyfigreind er hreyfigeta og færni til líkamstjáningar.

Dansarar og íþróttamenn falla flestir í þennan flokk.

Tónlistargreind er hæfileikinn til að vinna með, meta og skapa tónlist. Tónlistargreindir eru taktnæmir og hafa gott tóneyra.

Samskiptagreind er hæfileikinn til að hafa samskipti við og skilja aðra, svo sem að ráða í látbragð þeirra og raddblæ. Fólk með háa samskiptagreind sómir sér oft vel sem kennarar, stjórnmálamenn eða sölumenn.

Sjálfsþekkingargreind er þekking á sjálfum sér, svo sem að þekkja styrk sinn og veikleika, tilfinningar sínar, hugsanir og langanir, og hæfni til að nýta þessa þekkingu sér til framdráttar. Fólk sterkt á þessu sviði hefur gjarnan áhuga á trúmálum og sálfræði.

Umhverfisgreind er hæfileikinn til að greina og meta hluti í náttúrunni. Fólk með háa umhverfisgreind er næmt fyrir umhverfi sínu: Jurtum, dýrum, fjöllum, skýjafari og svo framvegis. Það er gjarnt til að velja sér starfsgreinar eins og náttúrufræði og umhverfisfræði.

Hugmyndir um fjölgreindir ættu að virka hvetjandi fyrir nemendur, kennara og foreldra. Við erum ólík eins og við erum mörg. Allir geta gert eitthvað en enginn getur gert allt. Viðrum fjölbreytileikann í skólastarfi sem í lífinu almennt.