4. bekkur í Reykjavík

Á miðvikudagsmorgni 27.maí 2020 fórum við í 4. bekk í ferð til Reykjavíkur. Við fórum með rútu frá Grundaskóla og stoppuðum fyrst á Bessastöðum. Við fórum inn í Bessastaðakirkju og hittum ráðsmann Bessastaða sem sagði okkur aðeins frá kirkjunni og Bessastöðum. Þegar við vorum alveg að verða búin kom Guðni forseti óvænt og heilsaði upp á okkur. Við fengum svo hópmynd með honum á tröppunum á Bessastaðakirkju. 

Næsta stopp var Hvalasafnið, þar sáum við allskonar hvali í öllum stærðum og gerðum. Við lærðum að það eru tvær gerðir hvala, tannhvalir og skíðishvalir. Við fengum nesti á hvalasafninu og fengum að klifra í leikfangahval. 

Eftir ferðina á Hvalasafnið fórum við niður í miðbæ Reykjavíkur. Við kíktum aðeins í ráðhúsið þar ætluðum við að skoða stórt Íslandskort. En því miður var verið að laga þar inni svo kortið var ekki á sínum stað. Við skoðuðum Alþingishúsið, Stjórnarráðshúsið og margar styttur t.d. af Jóni Sigurðssyni, Ingólfi Arnarsyni og Ingibjörgu H. Bjarnason. 

Í lok dagsins enduðum við á að fara á Shake and pizza og borða dásamlega gómsæta pizzu og gos. Þetta var mjög skemmtilegur dagur í Reykjavík. Á leiðinni heim sofnuðu margir í rútunni eftir góðan dag. 

Kær kveðja
4. bekkur