List- og verkgreinar

Valkerfið í Grundaskóla

Í Grundaskóla er mikil áhersla lögð á list- og verkgreinar. Frá upphafi hefur verið stefnt að því að bjóða upp á kennslu í öllum list- og verkgreinum í öllum árgöngum skólans. Kennsla í list- og verkgreinum hefur frá upphafi farið fram eftir svokölluðu valkerfi þar sem nemendur ferðast á milli námsgreina þar sem lögð er áhersla á að sinna grunnmenntun samkvæmt námskrá auk þess sem lögð er áhersla á blöndun árganga og ýmis konar þemavinnu í bland við hefðbundin verkefni. Lengd námskeiða er mismunandi eftir árgöngum og eftir því hvernig kennarar skipuleggja námið hverju sinni.

 

1.-7. bekkur

Í Grundaskóla er valkerfið skipulagt þannig tveir til þrír árgangar eru saman á valsvæðum. Nemendur velja sig inn á svæði inni hjá sínum umsjónarkennara og fara síðan á milli svæða. Í sumum tilfellum fara nemendur heilan hring og koma við á öllum valsvæðum en stundum er námið skipulagt þannig að nemendur fara t.d. á 2 af fjórum valsvæðum og þurfa því að velja á milli. Eins og áður sagði eru valsvæðin síðan nýtt í ýmis konar þemavinnu og er víkingaþema í 5.-6 bekk gott dæmi um slíka vinnu.

 

8.-10. bekkur – Valbrautir á unglingastigi

Valgreinakennsla var lengi með þeim hætti á unglingastigi að nemendur gátu valið mismunandi námsgreinar úr ólíkum flokkum og voru nemendur skyldugir til að velja eina úr hverjum flokki og voru þá jafnt í bóklegum sem verklegum greinum auk þess sem boðið var upp á valgreinar í íþróttum. Einnig tíðkaðist að nemendur fengju afslátt af valgreinum vegna t.d. náms í tónlistarskóla eða vegna annars viðurkennds náms utan skólans. Skólaárið 2009-2010 var ákveðið að breyta þessu fyrirkomulagi og bjóða nemendum þess í stað að velja ákveðnar valbrautir og vera eingöngu á þeim. Í stað þess að bjóða upp á einstakar valgreinar geta nemendur nú valið um þrjár brautir eða, Listabraut, Rannsóknarbraut og Lífsstílsbraut þar sem áherslan er lögð á fjölbreyttar námsaðferðir og ýmis konar verkefna- og þemavinnu. Námið er skipulagt þannig að nemendur eru tvo daga í viku, 3 kennslustundir í senn, og fá því alls 6 kennslustundir í viku. Dæmi um slíka vinnu er uppsetning söngleiksins Umferðarlands sem var samvinnuverkefni allra kennara og nemenda á Listabraut.