Foreldrarölt

Forvarnir eru óneitanlega stór þáttur í starfi foreldrafélags og er foreldrarölt þar mikilvægur þáttur, hvort sem um er að ræða vímuvarnir eða almennt öryggi unglinganna á götum bæjarins að kvöldlagi.

Á fundi í foreldrafélaginu haustið 2005 kom fram mikill vilji foreldra að rölta öll föstudagskvöld, en veturna þar á undan hafði einungis verið rölt þau kvöld sem böll voru haldin í grunnskólunum.  Stjórn foreldrafélagsins brást við þessari beiðni og skólaárið 2005-2006 var rölt öll föstudagskvöld auk þeirra fimmtudagskvölda þegar grunnskólaböll eru haldin.  Þessu fyrirkomulagi verður haldið áfram á yfirstandandi skólaári 2006-2007.

Samráð er haft við foreldrafélag Brekkubæjarskóla og æskulýðsfulltrúa Akraneskaupstaðar í Arnardal, og viðburðir í Fjölbrautaskóla Vesturlands einnig hafðir til hliðsjónar þegar röltið er skipulagt.

Gert er ráð fyrir því að allir foreldrar sem eiga börn í 8-10. bekk rölti, og foreldrar yngri barna eru einnig hvattir til að rölta. Skráningareyðublað liggur frammi á námsefniskynningum í unglingadeild á hverju hausti þar sem foreldrar skrá sig í 2 til 3 rölt á vetri.

Röltið fer þannig fram að ritari Grundaskóla hringir í foreldra sem hafa skráð sig í rölt viðkomandi mánuð. Einn þeirra sem hringt er í sækir svokallaða ”foreldraröltstösku” á lögreglustöðina en þar er að finna lykil að Arnardal, þar sem röltarar hittast, dagbók og merki sem röltarar merkja sig með. Rölt er að frá 22:50 til ca 23:45, eða eftir því sem við á. Gert er ráð fyrir að 3 aðilar frá hvorum grunnskólanum séu á rölti í hvert skipti.

Að mati ritara Grundaskóla sem hringir út í röltið bregðast foreldrar vel við og eru til mikillar fyrirmyndar hvað varðar þátttöku í foreldrarölti.