Frábær árangur í popplestrinum á miðstiginu

Undanfarnar tvær vikur hafa nemendur á miðstigi verið í lestrarátaki í heimalestri. Það var samskonar átak í nóvember og var mikill metnaður fyrir því að gera betur.

Það er gaman að segja frá því að nemendur lásu í 91.212 mínútur á þessu tímabili. Frábær árangur og jókst heimalesturinn frá því í nóvember um 31.209 mínútur.

Nemendur fengu eina poppbaun fyrir hverja mínútu sem þeir lásu og það var því  allsherjar poppveisla í skólanum sl. föstudag.

Líf og fjör í tónmennt

Í Grundaskóla leggjum við mikla áherslu á skapandi verkefni. Í list- og verkgreinum er oftast mikið líf og fjör þar sem sköpunarkrafturinn fær að njóta sín. Eftirfarandi myndband og myndir voru teknar síðast liðinn föstudag í tónmenntartíma hjá Samma.

Samsöngur á miðstigi

Það var mikið fjör hjá nemendum og starfsfólki á miðstiginu á samsöng í dag. Mörg skemmtileg lög voru sungin og mátti heyra lag eins og „Kátir voru karlar“ langt fram á gang. Hann Sammi sá um að leiða hópinn eins og honum einum er lagið.

Sigurður Arnar skólastjóri heimsækir Lallabakarí

Í desember síðastliðnum var hið virðulega Lallabakarí reist í einni skólastofunni í 2. bekk. Þar var fjölbreyttur varningur á boðstólum og mikið um að vera. Þegar kom að jólafrí leið það undir lok en var endurreist með snatri á fyrsta skóladegi á nýju ári enn virðulegra og með fjölbreyttari starfsemi. Þar er nú til að mynda matsölustaður þar sem hægt er að velja rétti af girnilegum matseðlum. (meira…)

Arnór Sigurðsson heimsótti gamla skólann sinn

Hafðu trú á sjálfum þér, vertu góð manneskja og fylgdu draumum þínum

 

Nemendur í unglingadeildinni í Grundaskóla fengu skemmtilega heimsókn í vikunni en Arnór Sigurðsson atvinnumaður í fótbolta hélt innihaldsríkan og hvetjandi fyrirlestur fyrir nemendur. Hann fjallaði um leiðina að atvinnumannaferlinum og öllu því sem honum fylgir. Með honum í för var Ragna Dís Sveinbjörnsdóttir kærastan hans en þau eru bæði fyrrverandi nemendur í Grundaskóla. Arnór náði vel til nemenda sem hlustuðu einbeittir á kappann og mátti heyra saumnál detta þegar hann flutti fyrirlesturinn.

Arnór kom inn á áhugaverða þætti sem stuðluðu að velgengni hans á vellinum allt frá því þegar hann var ungur polli hér á skaganum með draum um að verða atvinnumaður, yfir í mótlæti sem síðar reyndist honum gott veganesti á ferlinum og nú leikmaður CSKA Moskva. 

Hann hvatti nemendur til að prófa nýja hluti eins og að koma fram og reyna þannig á sig. Í því samhengi sagði hann það hafa gert mikið fyrir sig að hafa tekið þátt í verkefnum á vegum Grundaskóla eins og tónleikunum Ungir gamlirsem og að leika í söngleiknum Úlfur úlfursem sýndur var árið 2015. Arnór og Ragna Dís tóku bæði þátt í söngleiknum. 

Það eru nefnilega margir þættir sem koma þér lengra, ekki bara það að æfa fótbolta, það þarf líka að styrkja andlegu hliðina, félagstengslin og stunda námið vel. 

Arnór og Ragna svöruðu spurningum nemenda í lok fyrirlestursins en nemendur sýndu dvölinni í Svíþjóð og Rússlandi mikinn áhuga, svo ekki sé minnst á tilfinninguna að leggja upp mark og skora á móti Real Madrid.

Arnór lagði áherslu á að nemendur ættu að leggja sig fram við að vera góðar manneskjur, fylgja draumum sínum og sýna metnað í því sem þeir taka sér fyrir hendur.   

Það var frábært að hlusta á þennan metnaðarfulla dreng sem ætlar sér enn lengra í fótboltanum. 

 

Við þökkum þeim Arnóri og Rögnu Dís kærlega fyrir að gefa sér tíma til að heimsækja okkur. 

Lestrarvinir

Við erum lánsöm á yngsta stigi í Grundaskóla því í hverri viku koma lestrarvinir sem hlýða á nemendur lesa og aðstoða þá við að auka lestrarfærni sína. (meira…)

Gleðilegt nýtt ár

Við í Grundaskóla óskum ykkur gleðilegs nýs árs með þökk fyrir samstarfið á liðnu ári. 
Árið 2019 býður upp á mörg spennandi verkefni og nýjar áskoranir. 

Kveðja, Grundaskóli 

Litlu jólin í Grundaskóla

Í dag héldum við litlu jólin hátíðleg í Grundaskóla. Samkvæmt hefðinni hittu nemendur umsjónarkennara sína og áttu notalega stund í heimastofunni. Í framhaldi fluttu þriðju bekkingar helgileik, skólaskórinn kom fram og sýnt var brot úr jólasveinaleikriti 7. bekkjar. Enn fremur voru veitt verðlaun í árlegri jólakortasamkeppni skólans. Hlutskarpastur var Almar Daði Kristinsson en vinnigsmynd hans hefur nú verið prentuð sem jólakort Grundaskóla.

Að lokum var síðan dansað í kringum jólatréð en við skulum láta myndirnar tala sínu máli.

Patrekur Orri Unnarsson með nýtt frumsamið jólalag

Það er gaman að segja frá því að Patrekur Orri Unnarsson, sem útskrifaðist frá Grundaskóla í vor, hefur nú sent frá sér sitt fyrsta frumsamda lag. Lagið heitir Jólin eru yndisleg og við óskum Patreki til hamingju með frumraunina í útgáfu tónlistar. Þess ber að geta að Patrekur var alltaf mjög virkur í tónlist og leiklist í Grundaskóla og gaman er að sjá að hann heldur áfram á þessu sviði. Lagið er hægt að finna á Youtube og verður jafnframt aðgengilegt á Spotify mjög fljótlega.

3. bekkur heimsótti slökkvistöðina

Í vikunni fórum við í 3.bekk í heimsókn á slökkviliðsstöðina. Slökkviliðsstjórinn, slökkviliðsmaður og slökkviliðskona tóku vel á móti okkur og fræddu okkur um eldvarnir. Slökkviliðskonan var í búningi og með súrefniskút. Ef það kviknar í þarf hún að fara inn í eldinn og leita að fólki sem gæti verið þar.  

Okkur var sagt að það ættu að vera reykskynjarar heima hjá öllum og það þyrfti að skipta um rafhlöðu á hverju ári. Það þarf líka að vera slökkvitæki á hverju heimili og eldvarnarteppi í eldhúsinu. Við horfðum á kennarana æfa sig að slökkva eld með eldvarnarteppi. Þetta var mjög góð ferð og við þökkum kærlega fyrir okkur.

Bestu kveðjur, 3.bekkur

Eldri fréttir