Patrekur Orri Unnarsson með nýtt frumsamið jólalag

Það er gaman að segja frá því að Patrekur Orri Unnarsson, sem útskrifaðist frá Grundaskóla í vor, hefur nú sent frá sér sitt fyrsta frumsamda lag. Lagið heitir Jólin eru yndisleg og við óskum Patreki til hamingju með frumraunina í útgáfu tónlistar. Þess ber að geta að Patrekur var alltaf mjög virkur í tónlist og leiklist í Grundaskóla og gaman er að sjá að hann heldur áfram á þessu sviði. Lagið er hægt að finna á Youtube og verður jafnframt aðgengilegt á Spotify mjög fljótlega.

3. bekkur heimsótti slökkvistöðina

Í vikunni fórum við í 3.bekk í heimsókn á slökkviliðsstöðina. Slökkviliðsstjórinn, slökkviliðsmaður og slökkviliðskona tóku vel á móti okkur og fræddu okkur um eldvarnir. Slökkviliðskonan var í búningi og með súrefniskút. Ef það kviknar í þarf hún að fara inn í eldinn og leita að fólki sem gæti verið þar.  

Okkur var sagt að það ættu að vera reykskynjarar heima hjá öllum og það þyrfti að skipta um rafhlöðu á hverju ári. Það þarf líka að vera slökkvitæki á hverju heimili og eldvarnarteppi í eldhúsinu. Við horfðum á kennarana æfa sig að slökkva eld með eldvarnarteppi. Þetta var mjög góð ferð og við þökkum kærlega fyrir okkur.

Bestu kveðjur, 3.bekkur

Nóg að gera hjá skólakór Grundaskóla

Það var í nógu að snúast hjá Skólakórnum okkar um helgina. Á laugardeginum söng yngri hópurinn á Akratorgi, þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu. (meira…)

Endurskinsvesti

Nú eru dimmustu mánuðurnir framundan og því mikilvægt að sjást vel í umferðinni. Við hvetjum alla sem eru á ferðinni í myrkrinu að nota endurskinsvesti  og endurskinsmerki. 
 
Á skrifstofu skólans er hægt að kaupa umferðarvesti á 1500 kr. Vestin eru fáanleg í tveimur stærðum , 7 – 9 ára og 10 – 12 ára. Eingöngu er tekið við peningum. 
 
 

Samverustund 1. bekkinga

Í dag var líf og fjör inn á sal  Grundaskóla þar sem allir 1.bekkingar í Brekkubæjar-og Grundaskóla og allir elstu nemendur  frá öllum leikskólum bæjarins komu saman og skemmtu sér.  Sungin voru jólalög, atriði sýnd á sviði og í lokin var dansað. Flottir krakkar hér á ferð.

Malaví-markaður í Grundaskóla – svipmyndir

Fimmtudaginn 29. nóvember fór fram árlegur Malavímarkaður í Grundaskóla. Eins og alltaf,heimsótti okkur mikill fjöldi gesta og mikið fjör var við verslunarborðin og í kaffihúsinu. Við í Grundaskóla erum afar þakklát fyrir góðar viðtökur. Ef smellt er á meðfylgjandi tengil má sjá myndir og myndbönd frá þessum frábæra degi.

 

Rithöfundar komu í heimsókn

Ævar Þór Benediktsson rithöfundur og vísindamaður kom í heimsókn til okkar og kynnti nýjustu bók sína, Þitt eigið tímaferðalag. Þessi bók er eflaust mjög ofarlega á óskalista nemenda okkar þessi jólin enda bókin skemmtileg aflestar og Ævar náði einstaklega vel til krakkana.

Gunnar Helgason kom líka í heimsókn og kynnti nýju bókina sína Siggi sítróna sem er fjórða bókin um hana Stellu og fjölskyldu hennar. Gunnar vakti mikla lukku og hlátrasköllin dundu um salin.

Útvarp Akraness um helgina

Núna fyrstu helgi aðventunnar fer Útvarp Akraness í loftiðHefð er fyrir því  nemendur 5. bekkja sjái um dagskráVið viljum vekja athygli á því  5. bekkur Grundaskóla verður í loftinu frá klukkan 9.30 – 11.00, sunnudaginn 2. desember
Þar munu þau fara með frumsamið efni auk þess  segja frá skólastarfinuEndilega fylgist með þessu flottu krökkum.  (meira…)

Malavímarkaður – við breytum krónum í gull

Undanfarna daga og vikur hafa nemendur og starfsfólk Grundaskóla verið að undirbúa árlegan Malavímarkað sem fram fer í Grundaskóla, fimmtudaginn 29.nóvember og hefst klukkan 11:45 og lýkur klukkan 13:00. Til sölu er fjölbreytilegur varningur sem búinn er til af nemendum Grundaskóla en allur ágóði rennur til styrktar skólastarfi í Malaví, einu af fátækustu ríkjum heims. Auk þess að gestir geti rölt á milli sölubása geta þeir slakað á inni á sal skólans þar sem hægt er að kaupa vöfflur og rjúkandi drykki en jafnframt bjóða nemendur skólans upp á tónlistaratriði.

Malavísöfnunin hófst fyrir allmörgum árum þegar nemendur skólans ákváðu að leggja niður þá hefð að gefa hver öðrum jólagjafir en setja í stað þess ákveðna upphæð í söfnun þar sem markmiðið var að láta gott af sér leiða og gefa þeim sem þurfa meira á því að halda. Í gegnum árin hafa safnast heilmiklar fjárhæðir sem Rauði krossinn á Íslandi hefur haft milligöngu með að koma í réttar hendur. Við í Grundaskóla erum afar stolt af þessu verkefni og hvetjum sem flesta til að mæta í Grundaskóla til að eiga notalega stund og styrkja gott málefni í leiðinni.

 

Fríða og Dýrið

List- og verkgreinar blómstra í Grundaskóla

Á hverju ári setur leiklistarsmiðja í unglingadeild upp leikrit sem sýnt er á sal skólans fyrir alla nemendur auk þess sem krökkum af leikskólum bæjarins er boðið á sýningu. Um árabil hafa Einar Viðarsson, Gunnar Sturla Hervarsson og Eygló Gunnarsdóttir borið veg og vanda af þessum sýningum, Einar og Gunnar við leikstjórn og aðra umsýslu en Eygló við hönnun og framleiðslu á búningum ásamt vöskum hópi nemenda. Að þessu sinni sýndi leikhópurinn Fríðu og Dýrið sem flestir kannast við. Skilaboð leikritsins eru þau að fegurðin kemur að innan og að hugsa ekki bara um sjálfan sig heldur vera góður við aðra, komust vel til skila í meðferð leikhópsins. Það er ótrúlegt hvað alltaf tekst að setja upp flottar sýningar á hverju ári þar sem krakkarnir fara á kostum undir styrkri leiðsögn þeirra félaga. Sviðmynd og búningar hjálpast síðan að við að mynda frábæra heild. Það er óhætt að segja það að Grundaskóli standi sig vel á list- og verkgreinasviðinu því bráðum styttist í að 7. bekkur sýni árlegt jólasveinaleikrit. Það átta sig ekki allir á hvað mörg handtök eru að baki svona leiksýninga en eins og meðfylgjandi myndir sýna hafa kennarar og nemendur staðið í ströngu við að teikna, mála, smíða, sauma og föndra við hitt og þetta auk þess sem leikarar hafa þurft að læra textann og æfa framsögn. Til hamingju leiklistarsmiðja með frábært verk.

 

Eldri fréttir